Í gær var japanskasti dagurinn minn til þessa. Hann byrjaði á því að ég þorði í fyrsta sinn að smakka japanskan morgunmat á hótelinu. Það er reiktur fiskur í honum og svo setur maður hrátt egg og sojasósu út á hrísgrjónin sín og svona. Það var fantagott. ("Western style" morgunverðurinn er ekki alveg að gera sig. Enda Japanir engin brauðþjóð. Hef heldur ekki séð neinn feitan... það er að segja af innfæddum.)
Síðan var meira ráðstefn. Aðalfyrirlestrar um morgununn voru báðir alveg fantaæðislegir. Fyrst talaði Petra Kuppers, hún er áhugaleikari og er í hjólastól. Þýsk, starfar við háskólann í Michigan. Hún rannsakar, og talaði um, áhugaleikhús og leikhús fatlaðra, sýndi okkur myndir af æðislegum sýningum, og ég talaði við hana og sagði henni frá Halanum, seinna. Svo talaði Paul Rae sem starfar við háskólann í Singapúr um eyjamenningu og heimsmenningu og var alveg ferlega áhugaverður líka.
Svo var new scholars panell, þar fór ég að sjá Gender negotiations, eða kynjafræðistöff, meðal annars fyrirlesturinn hjá Bestaflokksaðdáanda, (fyrir) sem ég rakst á hérna. Mjög merkilegt. Í hádeginu var síðan hádegisverðarboð fyrir new scholars. Það er fyrir alla sem ekki hafa lokið doktorsnámi og þar er líka stjórn samtakanna og svona. Góóóóður matur þar. Síðan fór ég í eitt seminar um pólitík. Þar töluðu eintómir gamlir refir og það var nú stuð. Þeir vita fullt.
Í seinna kaffinu hélt ég áfram með japanska þemað, fór á tedrykkjuserimóníu. Bætti um betur með því að hætta á að pissa í japanskt klósett í sömu pásu. Það var... áhugavert.
Síðasta málstofa dagsins var fjölþjóðlegur panell um femínisma. Fyrirlestrar frá Bandaríkjunum, Japan, Indlandi og Bretlandi. Og líflegar umræður á eftir. Af því að umræðan fór eitthvað þangað þá tjáði ég mig aðeins um karlahóp femínistafélagsins á Íslandi. (Eftir nokkur heiladauð innlegg um hvort femínismi/kvenréttindabarátta sé eitthvað fyrir karlmenn.) En þetta var mjög gaman.
Um kvöldið var Noh-leikhús. Sem mér fannst skemmtilegt, aftur, en átti mér fá skoðanasystkin, aftur. Óvenju fjölmenn bjórdrykkja eftir heimkomu á óvenjufjölmennum bar. En Japanir eru sniðugir, loka börunum sínum og henda manni út um ellefuleytið, þannig að við erum alltaf komin heim á skikkanlegum tíma.
Jæja.
Síðasti ráðstefnudagurinn!
10.8.11
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli