10.8.11

Dagur 4. Rokkstjarn!

Í gær byrjaði ráðstefnan. Á morgnana er alltaf einn svona "allsherjarfyrirlestur" sem allir mæta á, og þennan morgun voru líka allar velkomnuræðurnar. Fráfarandi formaður samtakanna, Brian Singleton, talaði sem og skipuleggjandi alls dæmisins hér í Japan Yasushi Nagata. Svo var Mori Mitsuya með fyrirlestur. Ég verð að viðurkenna að ég hlustaði ekki reglulega vel á hann, enda var fyrirlesturinn minn í málstofu sem byrjaði strax á eftir. Semsagt, klukkan 11 hófust málstofur (sem eru þrjár á dag, 1 og hálfur tími hver) og ég var með fyrirlestur í einni þarna strax ásamt tveimur Eistum. (Haha, var bara að fatta núna að það er fyndið.)

Allavega, það var alveg sæmileg mæting, (ekkert rokkstjörnu, en samt) og okkur Gnarrinum tókst alveg sæmilega upp. Allavega er alveg fullt af fólki búið að þurfa ferlega mikið að tala við mig um fyrirbærið og svona. Annars erum við, nokkur, búin að tala heilmikið um hvað jafngildir rokkstjörnu í akademísku samhengi, og erum komin með þvílíkan metnað, eitthvað. Eftir að þessu var svona yndislega afl0kið fórum við og fundum japanskan hádegisverð í einhverju mötuneyti og svo var njarðað frekar. Eftir hádegishlé var það sem kallað er "new scholars forum". Málstofur þar sem fólk í doktorsnámi er og fær aðeins að tala í tíu mínútur, í stað þeirra tuttugu sem við fáum við "stórukrakkaborðið". (Ég hefði getað verið í því, en nennti ekki til Japan fyrir 10 mínútur.) Ég fann náttúrulega eitthvað pólitískt, þar sem var m.a. mögnuð úttekt á byltingunni í Egyptalandi.

Í síðustu málstofu dagsins fór ég síðan á fyrstu málstofu sem tengist vinnuhópi sem félagar mínir voru að stofna um leikhús og trúarbrögð. Ferlega gaman, einn fyrirlestur um bandaríska gyðinga, annar frá Íran og sá þriðji frá Nígeríu. Hroðalega skemmtilegar umræður og þegar ég kom út var ég í smá stund að rifja upp hvar ég var.

Þá var trillað beint út í rútu, og brunað í opnunarboð ráðstefnunnar. Hún var í áhugaleikhúsi útúr bænum. í Nose Ningyo Joruri Theatre hvar etið var frá sér sem mest vit, síðan fengum við stutta brúðuleiksýningu. Í ætti við Bunraku. Nema amatör. Það sást alveg. Hins vegar fengum við að fikta í brúðunum í þessu leikhúsi. Það var sko gaman!

Svo var bjórsession. Þar fréttum við Kim frá Danmörku að við hefðum verið með BESTU abströktin þegar við sóttum um fjármögnun frá hátíðinni til ferðarinnar og það hefði aldrei verið nein spurning um að við fengjum að koma. Fyrir því var hæfævað dáldið. (Og rokkstjarnað.)

Besta uppgötvun dagsins var samt sú að á föstudaginn er ekki laugardagur. Sem þýðir að ég kemst í skoðunarferð til Kyoto, sem ég hefði ekki komist í ef allt hefði verið eins og ég hélt. Svo í miða í hana var fjárfest.

Það var heitt þegar við komum og síðan hefur bara hitnað og hitnað. Vill til að ráðstefnuskólinn er prýðilega loftkældur. (Jafnvel einum of, á stundum. Já, ég á von á kvefi á hverri stundu.) Og tímamismunurinn virkar þannig á mig að ég vakna á hverjum morgni um hálfsex. Svo það er best að halla sér.

Dagurinn í dag kemur á morgun.
Meikar sens?

Engin ummæli: