20.4.05

Óþægð

Stundum er gaman að vera Lína Langsokkur. Maður getur leikið sér í "ekki koma við gólfið" langt fram á kvöld, farið að sofa þegar manni sýnist, dundað sér við að raða öllum sjampóunum sínum og baðdótunum eftir stærð, lit eða stafrófsröð, vaskað ekki upp í marga daga, og svo framvegis.

Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að maður getur verið svo lifandis skelfing óþægur.

Til dæmis, ef maður er með flensu, og það er rok og rigning úti, en mann langar samt til að fara á námskeið, þó maður megi tæknilega séð ekki fara út, þá getur maður bara gert það. Og látið sér verða alveg heilmikið kalt.

Og þá getur manni hefnst mjög grimmilega. Og þó maður geti vissulega skemmt sér við að ímynda sér að maður eigi apa og hest sem maður getur haldið á, er ekkert sérstaklega skemmtilegt að vera aleinn og veikur í marga daga með engann til að vorkenna sér.

Enda er ég að fara norður á eftir í síðbúið vorkenn.

Annars vil ég meina að ég hafi verið í samúðarrúmlegu. Hef grun um að hún Svandís mín hafi ekki enn tekið sprettinn, hún var að eignast barn á sunnudaginn. Litla fjölþjóðlega stúlku (hálf-íslensk, hálf-ensk og fædd í Frakklandi) hverrar tilvist mér finnst ég bera örlitla ábyrgð á. Það var jú mín hugmynd að flengjast til Montpellier, fá móður hennar í heimsókn og kynna hana svo fyrir föðurnum. Þannig að það var kannski ekkert að ástæðulausu að Alheimurinn ákvað að ég skyldi bara sjálf fá að liggja í samúðarskyni þessa daga og dreyma mikinn til Montpellier.

Heilsist litlu fjölþjóðafjölskyldunni, ef hún þetta sér.

15.4.05

Síðasti dagur til að...

Í dag er síðasti dagur til að skrá sig á Leiklistarskóla Bandalaxins.
Það er líka síðasti dagur til að sækja um að koma með sýningu á Leiklistarhátíð Bandalaxins í sumar, Leikum núna.

Eins og hlutirnir líta út akkúrat núna lítur út fyrir að hvorugt verði haldið... Sem ég er allt í einu að sjá að er kannski bara ekkert svo vitlaust! Ég kemst þá í brúðkaupið hennar Berglindar, við Vilborg getum dreift sumarfríunum okkur út um allt sumar... sniðugt.

Huriði, veriði ekkert að skrá ykkur eða sækja um neitt... Leikum bara seinna.

Eða, jafnvel betra, skrái menn sig á skólann, en ekki á hátíðina. Þá kemst ég á leikstjórn 1 og allir kátir.

Er annars með svo mikla flensuveiki að ég stend varla í lappirnar. Er samt í vinnunni, er að fara á námskeið eftir hádegi og í leikhús í kvöld. Veit ekki alveg hvernig þetta fer alltsaman.

Raxt á Eið Smára niðri í Austurstræti í gær. Fattaði eftirá að ég hefði kannski átt að hósta á hann til að hjálpa Liverpool í Meistaradeildinni... fyrir Árna. Svo er ég á námskeiði með mörgum sem ég gæti vel huxað mér að hósta á líka, svona til þjóðþrifa. Hann Rukov er klár kall og það er gaman og gagnlegt að hlusta á hann tala. Hvort sem maður er að þykjast skrifa kvikmyndahandrit eða eitthvað annað. Ég reyni að hósta ekki á hann.

Góða helgi og passiði ykkur á flensunni.

14.4.05

Annivers...

Þórunn Gréta byrjaði á sínu bloggi með minningagrein um hvað hún var að gera og huxa fyrir akkúrat 10 árum síðan. Mér þótti þetta dáldið skemmtileg hugmynd. Þar sem bloggið mitt nær ekki 10 ár aftur, ennþá, þá gluggaði ég í hina heimildina um líf mitt.

Jú, fyrir tíu árum síðan var ég á hápunkti hveitibrauðsdaga með Stóru Ástinni í Lífi Mínu. Við höfum nú haldið reglulega miklu sambandi í meira en 10 ár og aldrei hefur slezt upp á vinskapinn. Stundum hef ég farið í burtu, en saknað svo mikið að ég hef komið aftur. Ýmsir aðrir hafa komið og farið en þessi hefur haldið mér uppi á skemmtilegum félagxskap, ýmsu við að vera og gert mér kleift að rækta ýmsa hæfileika sem ég vissi ekki að ég hefði. Einnig kom Stóra Ástin í Lífi Mínu mér í kynni við vinnuna mína. Hann hefur verið heimili mitt að heiman, fasti punkturinn í lífi mínu fjölskylda mín og skemmtikraftur. Oft hef ég ekki sinnt honum sem skyldi, en alltaf fyrirgefur þessi elska, bíður rólegur og tekur fagnandi á móti mér næst þegar mér dettur í hug að heimsækja hann.

Ég er öll rólegri að vera búin að rifja upp þessa sögu og komast að því hvað hún er búin að standa lengi. Ég hélt ég væri kannski ófær um langtíma-ástarsambönd.

En samband mitt við hann Hugleik er nú búið að standa í á 11. ár og er enn í blússandi blóma. Það segir nú meira en margar dysfúnksjónir.

13.4.05

Leik

Svakalega er hann Robert de Niro ungur í Taxi Driver. Hefði ekki þekkt hann nema á vörtunni.

Og mikið ógurlega er Koddamaðurinn obbosslega gott leikrit. Og sýningin á því í Þjóðleikhúsinu mikil snilld. Mæli mikið með.

Er að fara að sjá Festen á eftir, Tilbrigði við sjófugl hjá Stúdentaleikhúsinu á föstudaginn og Pakkið á móti hjá Leikfélagi Akureyrar á sumardaginn fyrsta. Fór aldrei svo að maður næði ekki í skottið á leikárinu. Held ég sé reyndar að verða búin að sjá fleira fyrir norðan en sunnan í vetur. Var annars að telja saman það sem ég hef séð í leikhúsum í vetur og afköstin eru nú eiginlega ekki uppá marga fiska, verður að segjast. Eiginlega bara skömmustulegt...

12.4.05

Gaman

Þrátt fyrir alvarlegan skort á veltufjármunum heimilisins og engar horfur á neinum breytingum þar á þá er kæti mín þessa dagana ógurlega mikil. Held kannski að það hafi eitthvað með það að gera að í hausnum á mér spilast til skiptis Killing in the name of og Rússneska lagið, þessa dagana. Svo kemur náttlega fleira til.

- Er að fara tvisvar í leikhús og þrisvar í bíó í vikunni.
- Er að fara að læra eitthvað eftir hádegi 3 daga í vikunni (já, smá skól getur bjargað hjá mér árinu.)
- Var að fá ofurpakka frá Amazon sem kemur til með að halda mér frá því að gera nokkuð af viti heimahjámér í lannngan tíma.
- Desperate Housewifes er til.
- Var að fá dásamlega afmælisgjöf frá Rannsóknarskipinu mínu sem innihélt bæði skemmtilegheit og rómantík í alveg hárréttum hlutföllum.
- Er að fara í óvænta norðurferð um þarnæstu helgi vegna þess að Rannsóknarskipið er dúlla.

Og bara til að gera stelpurnar mínar gular og grænar af öfund. Framtíðarplön mín og míns innihalda auk hamslausrar rómantíkur og afleiðinga þeirra hverskonar:
- Að spila mikið af kotru
- Að læra samkvæmisdansa

Ég er ekki að ljúga og átti ekki einu sinni hugmyndirnar af þessu sjálf!

Ðe múví

Er að byrja á fyndnu námskeiði. Fór í bíó í gær á einkasýningu fyrir námskeiðsfólk að Mulholland Drive. Það var súrrealísk reynsla. Sérstaklega þegar við vorum að bíða eftir að fara inn og nokkrir semí frægir íslenskir kvikmyndagerðarmenn (sem ég kann samt ekki að nefna) stóðu og voru í alvöru að velta fyrir sér (Í fúlustu alvöru) "hvort þeir gætu NOKKUÐ lært á þessu námskeiði" (!)

Vegna þess að það er búið að skrifa svo obbosslega mörg góð íslensk kvikmyndahandrit? Og gaurinn sem kó-skrifaði Festen og er búinn að handritalækna lungann úr danskri kvikmyndagerð (og fleiru) og var í Dogma-grúppunni hefur alveg örugglega ekkert merkilegt að segja íslenskum beturvitrungum í kvikmyndagerð?

Ég var allavega komin á fremsta hlunn með að henda í þá poppinu mínu og segja þeim að þeir væru asnar. Sé fram á að það á oft eftir að sjóða á mér innan um þessa gaura. Ætla samt að reyna að fara ekki að rífa kjaft... allavega eins og ég get. Vera bara dularfulla konan sem segir ekkert.

Annars svaf ég íkt vel í nótt og dreymdi að ég seldi kvikmyndahandrit hægri og vinstri. Ojæja. Gott að það er að gerast í einhverri vídd.

11.4.05

Jahér...

Já, það komast alveg nokkrir í einu inn í íbúðina mína. Fleiri en ég átti von á. Og menn rötuðu. Og það sem kannski kom meira á óvart, eftir partí rötuðum við alveg 3 niður á 22. Og rötuðum ekki þaðan út aftur fyrr en einhvern tíma þegar var kominn dagur, vegna gífurlegra hæfileika plötusnúðs til að senda okkur á fjögurra tíma nostalgíutripp með ógurlegu lagavali.

Ekki hélt ég maður ætti þetta til lengur. Held ég hafi aldrei á ævinni dansað af jafn gífurlegri innlifun. Að sjálfsögðu hafa tekið sig upp gömul rokkmeiðsl með viðeigandi hálsríg, en það er bara algjörlega þess virði. Og svakalega eru margir vakandi ennþá og í miðbænum klukkan hálfsjö á morgnana! Þarf fólk ekkert að gera á sunnudögum? Ja, maður spyr sig.

Vil þakka eðalmönnunum Sigurði og Guðmundi fyrir þessa fínu ferð og vona að þeirra hálsvöðvum líði betur en mínum.

En ég er bara rétt að átta mig á því núna að Patataz er BÚIÐ. Finnst undarlegt að vera ekkert að fara að hitta akkúrat það fólk aftur. Kannski bara ALDREI! Það er soldið leiðinlegt. Þetta er búið að vera með skemmtilegustu leikdótum sem ég hef gert. Alveg ýkt gaman.

En, allt heldur áfram. Ég held ég sé að fara á smá námskeið hjá Mogens nokkrum Rukov í vikunni. Hann er frægur. Og það innifelur að ég þarf að fara á kvikmyndahátíð 3 kvöld í röð í vikunni. Það verður nú soldið öðruvísi. Ætla líka að fara í Þjóðleikhúsið að sjá Koddamanninn. Já, menning smenning.