5.9.05

Já...

það er vandlifað. Ég er búin að komast að því að það er ekki hlaupið að því að ætla að vera óléttur og fyndinn, bæði í einu. Allt í einu eru menn eitthvað óvenjureiðubúnir að taka mínar orðglöðu yfirlýsingar alvarlega (!) sem aldrei fyrr.

(Sumir reyna síðan náttúrulega eftir á að hlaupa í skjól við kaldhæðnina, eins og óbermið hann Sævar, sem ég er farin að gruna um að hafa frú sína hlekkjaða bak við eldavélina til þess að börnin missi nú örugglega ekki takið á pilsfaldinum. Pffff.)

Það er nú samt einu sinni þannig að að innræti hef ég ekki tekið neinum sérstökum stakkaskiptum, held ég. Flest sem ég tjái mig um geri ég til að reyna að vera fyndin. (Eða pólitísk, kemur fyrir.) En mínir innstu og raunverulegustu vonir, óttar, þrár og fyrirætlanir varðandi hlutverk mæðrunar eru nú eingöngu fyrir eyru og augu eins manns. Og huxanlega einnar og einnar vinkonu undir fjögur. Svo sem eins og allt mitt væm fram til þess. Enda held ég að vandi sé um slíkt að spá, þegar maður veitt ekkert útí hvað mar er að fara og sitt sýnist hverjum í heiminum um verkefnið. Þess vegna held ég að planleggingar um líferni eftir fjölgun mannkyns séu best takmarkaðar við það sem sjóndeildarhringurinn þekkti fyrir.

Og, já, það mun koma fyrir að ég bregði mér af bæ. Þó ekki væri til annars en að forpipruð systir mín hin kjaftforri fái að uppfylla örlög sín og verða eins og Patty og Selma í Simpsons, annað slagið. Mér skilst hún sé strax farin að æfa sig að reykja og safna hári á löppunum.

Eitt er þó að frétta af barninu. (Í sjálfri mér ;-) Ég hef heyrt því fleygt að það sé misjafnt hvenær konum þyki ófædd börn þeirra verða "raunveruleg". Og sá tími getur komið allt frá því að þær pissa á prikið og þangað til barnið er um fermingu. Mér varð ekkert sérstaklega um hreyfingar eða sónarmynd. En ég er ekki frá því að barnunginn hafi "líkamnast" aðeins fyrir mér síðustu nótt. Mig nefnilega dreymdi að ég héldi á því. Ég vaknaði svolítið með þá tilfinningu að það hefði gerst í alvöru.

(Síðan hélt draumurinn auðvitað áfram á þá leið að ég týndi barninu, eins og gerist gjarnan ef ég á börn í draumum mínum, fattaði að ég var ennþá ólétt og í framhaldi af því að ég hafði týnt barni einhvers annars og vissi ekki hvers... Hvað um það.)

Er á Egilsstöðum í foreldrahúsum. En Rannsóknarskipið hélt til byggða núna rétt áðan. Hér er brostið á með sumarleyfisblíðu (norðaustan hryllingi) þannig að ekki ætlar að viðra vel til þvotta á oggufatnaði sem ég er búin að vera að grafa hér upp. (Við höndlun á honum held ég reyndar að ég hafi fengið mína fyrstu: "Jiiiihvaððettersætt!"-tilfinningu.)

En það er nú vissara að hrista svoleiðis af sér þar sem verkefnið sem liggur aðallega fyrir hér er að skrifa einkar kaldhæðna og andstyggilega kafla í jólaleikrit.

4.9.05

Svo menn fái nú ekki endanlega hlönd fyrir hjörtun...

þá er víst líklega rétt að taka það fram að fyrirheit síðustu færslu tóku til EINS KVÖLDS sem haldið skal einhvern tíma næsta sumars að mjólkurbúslokun aflokinni. Þeir sem eitthvað þekkja til míns lífsmunsturs vita að ég hef ekkert verið að liggja íðí árum saman og sé ekki fram á að gera það neitt frekar í framtíðinni. Og mín drykkja á herðablöðin samanstendur af um 3 bjórum og þar enda þolmörkin og það gerist yfirleitt skömmu eftir miðnætti.

Mér þykir nú helvíti skítt að vera að fá á mig ávirðingar fólks fyrir að ætla að voga mér að eiga félagslíf og fá mér í tána eitt kvöld eftir ár. Og mér er mjög til efs að barnunginn taki uppá að taka tennur, læra að tala og ganga allt sama kvöldið, akkúrat á meðan.

Komm on fólks, hemja taugadrulluna.

1.9.05

Land undir hjól

Í dag held ég með flotann úr átthögunum. Eða kannski öllu heldur í þá. Höldum norður seinnipartinn hvar smábátur mun endurnýja kynni við norðurarm fjölskyldu sinnar. Ég verð í pössun að Brekku í Eyjafjarðarsveit á meðan Rannsóknarskipið menntar sig og svo er stefnan tekin austur í mín foreldrahús á laugardaxkvöld. Þar ætla ég að skilja mig eftir fram til sunnudax 11. september. Ætti að vera rúmt um mann í flugvélinni þann dag.

Í fréttum af barninu í sjálfri mér er það helst að ég fór í mæðraskoðun í gær og hafði ekki þyngst um eitt einasta gramm. Þóttu mér það góðar fréttir, en nokkuð undarlegar... Sú stækkun sem ég hef verið að sjá er þá líklega annað hvort ímynduð eða þyngdarlaus. Svo var mér uppálagt að taka járn þar sem ekki ku vera nóg af slíku í búskapnum. Lext á gaddavírsgirðingar í sveitinni.

Samt er óttalega kjánalegt að vera að fara svona seint í frí. Hugleikur kominn á fullt og ég missi af allskyns. Þykir reyndar bara betra að höfundagengið mitt úr Jólaævintýri stefni á bjór að mér fjarstaddri. Öfund er best stunduð úr fjarlægð. Ég gleymi líka og týni og afsaka mig frá partíum þessa dagana alveg eins og ég fái borgað fyrir það. Þar sem það er mér lífsins ómögulegt að vera vakandi fram yfir miðnætti, auk þess sem, sé maður ekki allavega með aðeins í öðrum fótnum, þá er það bara hreint ekki þess virði.

En það er löngu ákveðið, að það fyrsta sem ég geri, eftir að mannkyni hefur verið fjölgað og mjólkurbúi lokað, verður að drekka mig á öskrandi eyrun og herðablöðin svo undirtaki í heimsbyggðinni allri og ekki standi steinn yfir steini af siðmenningunni eftir.

30.8.05

Já, og annað...

Frétti um daginn að menntaðir sálfræðingar mættu víst ekki gantast með sjúkdómsheiti eins og Asperger-heilkenni á bloggum sínum, vildu þeir komast hjá samsætum með siðanefnd einkamála. Þetta þykir mér alveg hreint stórkostlegt. Sem fræðingur má maður sem sagt ekki fíflast með fræðiorð á sínu sviði.

Ég ætla að kanna þetta mál um leið og mér dettur eitthvað fyndið í hug varðandi póststrúktúralisma...

Heyrið mig nú

allir mínir stafsetningar- og málfræðinördar. Það kemur fyrir að við Mörður erum ekki alveg sammála. Nú ber svo við að ég er á móti öllum. Hvaða apaheili var það eiginlega sem ákvað að það ætti að skrifa hinum megin, en ekki hinu megin? Hins vegar má segja það í einu orði með einu m-i, hinumegin.

Ég er á móti þessu bruðli með emmin. Auk þess sem mér finnst þessi beyging ekki meika neinn fokkíng sens, sama hvað Mörður segir. Ef einhver kann rökstuðning sem ég skil vil ég gjarnan heyra hann, svo ég sofi betur á nóttunni.

Var samt mun sáttari við hann Mörð minn áðan þegar hann gat staðfest þá trú mína og vissu að að vissu leyti og á næsta leiti væri ekki eins skrifað.

Þetta var málnördismi daxins.(Og, já, sennilega þykir mörgum málfasistanum ég ofnota x-in. Þessum rithætti stal ég af Varríusi og þykir vel, þar sem x hefur verið mjög vannýttur stafur lengi. Vona að til verði breiðfylking x-ista með tímanum.)

Helst er auðvitað í fréttum þessa dagana að leikhúsin ryðjast fram með vetrardaxkrár sínar. Sé ég ekki að Þjóðleikhúsið, með Sævar Sigurgeirs fremstan í flokki, er búið að stela franska leikritinu sem ég ætlaði þvílíkt að slá um mig með því að þýða einhvern tíma. Svona hefnist manni fyrir að gera ekki það sem manni dettur í hug, strax. Ekki nóg með að Sævar sé orðinn mér sneggri í viðbrögðum heldur hótar Árni því reglulega að "Ortona" mig. (Nirðir í einkamálum leikskálda vita hvað átt er við með því.)

En mikið ógurlega hlakka ég til að sjá Túskildingsóperuna í Þjóðleikhúsinu. Mér finnst svo hryllilega skemmtileg tónlist í því. Sem og, auðvitað, 8 konur. (Sem ég ætla að sjá með hinu gagnrýnasta hugarfari og finna handriti allt til foráttu ;-)

Þegar ég verð búin að skoða betur hvað allir ætla að hafa að bjóða getur meiraðsegja vel verið að ég búi til einhvern topp 10 langar að sjá lista að hætti Varríusar. Svo er bara spurning hvenær minn stækkandi búkur hættir að komast í leikhússæti.

29.8.05

Sumarfrí!

Þá er komið sumarfrí, seinni hálfleikur, og ég held að við það tækifæri hafi heilinn á mér dottið úr sambandi. Er varla með meðvitund og nenni hreint ekki að byrja á öllu tiltakinu sem ég ætlaði nú aldeilis að klára í vikunni.

Um helgina fann ég hins vegar Hallgeirunginn í sjálfri mér, bakaði vöfflur og bauð fólki í þær. Fór í eitt barnaafmæli og komst að því að það eru einu staðirnir sem allt "gengið" hittist þessi árin. Svo var mikið grillað í gærkvöldi á pallinum. Mikið var viðhaft við föndrun grills og síðan étin á sig mörg göt í félagi við þau nágrannahjón Nönnu og Jón Geir. (Eða á maður að segja Jón Geir og Nönnu? Hvort er eðlilegra?)

*Geisp* Best að fara að athuga með að koma bókaflóði heimilisins í hillur.

26.8.05

Aliens?

Smábátur er kominn á kaf í félaxlífið. Hann er búinn að kynnast dreng sem á hund. Svo mikil var gleðin á heimilinu í gær, með þetta alltsaman, að ég var næstum búin að gleyma að fara í sónar.

Og talandi um það. Við Árni erum reyndar búin að vera að horfa á fyrstu þættina af X-Files undanfarið, en samt áttum við nú eiginlega ekki von á þessu:



The truth is in there!


(Fyrir þá sem ekki eru að fatta, þá er þetta sónarmynd af litlu geimverunni sem ég er að ganga með. Og, nei, við vitum ekki hvort það er stelpa eða strákur eða marsbúi. Það verður að vera einhver spenna í þessu.)

Og, allt reyndist vera á sínum stað, sagði konan. Ekki sáum við nú mikið vitrænt út úr þessu, samt. Barninu var einkar umhugað um að sýna ekki heilann á sér. Veit líklega að þar verða sko gerðar KRÖFUR. Og fæðingardagur er áætlaður þann 13. janúar. Gaman að því, ha? Gróa?

(Dagsetning þessi var pöntuð af einni móðursystur og einni föðursystur. Og ég hef eftir áreiðanlegum heimildum að hún Gróa fö lesi mig.)