22.11.10

2. í ofurstresskrumpi

Ekki virðist geðvonskan ætla að láta undan síga alveg strax. Allavega var mjög erfitt að díla við börnin í morgun. Það er eitthvað við ástand ofurstresskrumps að því fylgir mjög aukinn einhverfustuðull og erfiðleikar við að fást við mörg áreiti í einu. Og það er svo merkilegt að tvö börn geta haldið úti allt að 10 mismunandi áreitum alveg á sama tíma.

Svo mikið var nú óvenjulega gott að skilja þau eftir á leikskólanum í morgun. (Og þau voru jafnfegin að losna við pirruðu-mömmu.)

Annars er helst í fréttum að nú er mig farið að langa ansi hressilega til að losna við þessi 8 kíló sem eru eftir í staðlaða þyndarstuðlunarmarkmiðið sem ég er búin að einsetja mér. (Með réttu ellegar röngu.) Fyrsta skrefið er að komast loksins í leikfimi í dag eftir hálfsmánaðar veikindafrí frá allri hreyfingu. Jafnvel er smuga að einnig verði reynt að komast í jóga í vikunni (svona til að jafna geðið) og hlaupa svo vel og rækilega og langt um næstu helgi. Þegar ég hugsa um það þá á veikindatengt hreyfingarleysi örugglega heilmikinn þátt í geðkrumpinu.

Í þessari viku liggur aðallega fyrir próflestur. Prófið er í þarnæstu viku en sú næsta verður eitthvað frekar geðbiluð, þannig að þetta er vikan sem hlutirnir þurfa að lærast, sem mest. Annars vegar póstdramað og hins vegar allt hitt.

Og nú ætla ég að lesa um Leikhúsið og Tvígengil hans eftir Antonin Artaud.
Af því að það er svo gaman.

21.11.10

Ofurstresskrump

Það er gífurlegt stuð að hafa kvíðaröskun. Suma daga er svo gríðarlega mikilvægt að allt sé nákvæmlega eins og maður var búinn að ÁKVEÐA og að ekkert TRUFLI mann að það er eiginlega bara best að fara í vinnuna. Aumingja fjölskyldan hefur ekkert til saka unnið. Og mamman með ofurstresskrump er hreint ekkert skemmtileg.

Það heyrast líka allskonar hljóð í kringum heimili manns á sunnudögum. Þ.e.a.s. ef maður skyldi nú heyra eitthvað fyrir börnum í leikskólafráhvörfum. Þá ætla nágrannarnir víst eitthvað að fara að voga sér að eiga líf.

Í vinnunni er hins vegar alveg grafarþögn. Allavega minni. Allt nákvæmlega eins og ÉG ÁKVEÐ að hafa það.

En það væri svo sem gaman að vera í Húsdýragarðinum... með börnin, hlaupandi í sitthvora áttina endalaust og grenjandi yfir öllu sem má ekki og öllu sem þau eru of lítil til að gera...
Nei annars. Það væri eiginlega alveg hreint ekkert gaman og ferlega heppilegt að eiginmaðurinn er haldinn Ofurstresskrumpi, heldur hefur jafnaðargeð englanna.

Ofurstresskrumpið þarf að komast út um eyrun. Það gerist ekki nema með algjörri grafarþögn.

Ég ætla að hlusta á þögnina meðan ég les.

19.11.10

Uppris og Austurþankar

Fyrst í dag vaknaði ég nokkurn veginn eðlileg.
Hálfum mánuði eftir fyrsta í flensu.
Klukkan ellefu.
Búin að snúa sólahringnum alveg gjörsamlega við eins og unglingur í páskafríi.
Orðin hálfum mánuði á eftir með allt lífið, líka.
Og asnaleg af inni- og einveru.

Þá er að niðursjóða. Allt sem átti að gerast á þremur vikum þarf að gerast á einni. Ekkert víst að það verði neitt verra fyrir það.

Annars er ég með Egilsstaðaveikina. Það sem mig langar stundum að eiga heima þar. Ekki síst í kringum jólin. Ef það væri hægt myndi ég helst vilja fara austur svona í byrjun júlí, eða eftir skóla, og vera alltaf þar fram yfir áramót. Taka svo vorönnina í Hugleiknum og bænum. Samkvæmistímabilið. Eiga bara tvö heimili. Börnin ættu þá bara tvö sett af vinum og ef upp kæmi einelti eða vandamál væru þau hvortsemer alltaf alveg að fara að flytja.
(Enda, alltaf afar kúl að vera "nýr" eða "alveg að fara að flytja," eftir því sem ég best man, sem ól allan minn barnsaldur í sama húsinu.)

Akkurrekki?

Málið verður sett mjög alvarlega í nefnd þegar 40 millurnar úr lottóinu á laugardaginn verða í höfn.

15.11.10

Skreiðst

í vinnuna.

Er ennþá alveg eins og aumingi með hor og hósta og sleppu. Hefi enn einu sinni svarið þess dýran eið að vanmeta aldregi framar góða heilsu þegar hennar nýtur við. Og ætla þvílíkt út að hlaupa þegar þessu sleppir, hvernig sem viðrar!

Meðan ekki er hægt að gera annað en að lufsast um með hálfa meðvitund er síðan líklega best að reyna bara að gera eitthvað gagn með því. Nú þarf til dæmis að hjóla í doktorsritgerðina á milljón. Klára að vinna innganginn og ryðja helst útt uppkasti af einhverjum slatta af öðru fyrir jól. Og svo þarf að læra fyrir eitt próf... sem er reyndar mikið til skylt að efni þannig að það fellur ágætlega saman. Og svo smælkið... boða einn aðalfund, gera einn útvarpsþátt, æfa eitt leikrit, eða kannski tvö... Já, og svo er tími útdrátta að fyrirhuguðum fyrirlestrum næsta árs víst runninn upp!

Ég horfði annars á skemmtilegt rant Stephen Fry í gær. Við erum andlega skyld. Og ég er einmitt oft mjög fegin að ég skyldi hafa rambað á þann stórasannleik að vinnan manns sé, og þurfi að vera, skemmtilegri en skemmtun.

STEPHEN FRY: WHAT I WISH I'D KNOWN WHEN I WAS 18 from Peter Samuelson on Vimeo.

12.11.10

Oj

Það er svooooo kalt.
Og á svoleiðis tímum er um að gera að vera hundveikur og þurfa samt að fara í vinnuna. Ætla á tvo fundi núna fyrir hádegi en síðan er ég farin heim að breiða uppfyrir haus og hreyfi mig ekki fyrr en allt er batnað og veðrið líka.

Síjú!

10.11.10

Tíðkast nú hin stóru skærin...

Gnarr í fyrradag. Björk í gær. Hver ætli komi með grándbreik í dag?

Annars er ekki tími til að vera að fylgjast eitthvað með. Rignir verkefnum. Brjálað að gera. Ekki peningar í neinu, samt, sko. Svo merkilegt með það. Nema því að eiga börn. Við verðum alltaf jafnhissa þegar við fáum barnabætur. Reiknum aldrei með þeim, einhvernveginn.

En verkefnastaðan er nú samt þannig að það þarf að skipuleggja sig vel ef maður ætlar að ná klósettferðum og almennum lágmarksreglum um persónulegt hreinlæti. Svo er kannski spurning um að hætta að asnast til að drekka kaffi á leikæfingum á kvöldin, þannig að maður sofni einhverntíma fyrir eitthvað fáránlegt á nóttunni? Væri hreinasta gáfulegt bara.

Annars er ég að spá í að setja upp örstuttan einþáttung fyrir dagskrá sem ku eiga að eiga sér stað síðustu helgina í nóvember. Af því að það er nú svo lítið að gera. How hard can it be?

Altént er ég ekkert stressuð yfir neinu af þessu. Ætla að reyna að gera allt vel en ekkert að sparka í sjálfa mig fyrir að neitt sökki hjá mér. Þorvaldi Þorsteins tókst nefnilega að kenna mér, á fjórum helgum í október, að það væri asnalegt að láta svoleiðis. Pétur Tyrfingsson reyndar búinn að leggja grunninn að því mjög vel og vandlega á þunglyndis- og kvíðaröskunarnámskeiði í fyrra.

Það endar með því að ég hætti aðfara fram á að allt sem ég geri sé fullkomið!
Það væri nú gaman.
Sennilega bara fyrir alla.

Ókei. Póstdrama.

9.11.10

Gnarrenburgh!

Jón Gnarr talar ekki pólitík. Hann er algjörlega eintyngdur á mannamál. Hann er ekkert góður í að segja setningar sem hljóma eins og þær séu um eitthvað en þýða ekki neitt. Og hann segir aldrei "auðvitað". Hann sendir aldrei samflokksmenn sína til að svara óvinsælum spurningum. Hann ætlar ekki í endurkjör, heldur aðeins að sitja í fjögur ár í svörtustu kreppu þar sem hann þarf eingöngu að taka óvinsælar ákvarðanir.
Hverjum dettur í hug að gera sjálfum sér annað eins og þetta?

Fáum. Kannski engum öðrum.

Og þetta eru mjög merkileg tíðindi fyrir stjórnmál á Íslandi. Kannski víðar.

Margir eru mjög hræddir við þennan borgarstjóra. Ég held að það sé þó hræðslan við hið óþekkta frekar en að þeir telji fyrri borgarstjóra og pólitíkusa hafi verið svo ofboðslega starfi sínu vaxnir. Stjórnmálamaður sem aldrei viðurkennir mistök er annaðhvort alveg nautheimskur eða hraðlyginn. Athugist að þjóðin er á hausnum og enn hefur enginn viðurkennt hvorki mistök né brotavilja.

„Borgarmálin eru ekkert djók“ segja margir, með hræðslu-við-breytingar-glampa í augum.
Halda menn í alvöru að allir í Ráðhúsinu séu bara að djóka núna? Sitji bara og horfi á Næturvaktina og segi brandara? Ég sé ekki betur en að verið sé að skoða alls konar sparnaðarleiðir og ég veit ekki hvað. Og við höfum borgarstjóra sem hefur komið auga á það að borgarstjóra er ætlað að mækrómanagera allt of miklu innan borgarinnar. Svo kannski er ekki nema von að enginn þeirra hafi sinnt sínu starfi af viti. Það er hins vegar ekki í eðli pólitíkusa að skerða völd sín.

Gaurinn sem gerir Zeitgeist-myndirnar sagði þrennt þurfa að hverfa til að mannlegt samfélag yrði af einhverju viti. Pólitík, trúarbrögð og peningakerfið. Hann taldi erfiðast að losna við peningakerfið. Ég held hins vegar að pólitíkin hverfi aldrei alveg. Almenningur sækir í öryggi, einhvers konar kerfi og/eða reglur sem, í nútímanum, teljum við að einhvers konar yfirvald þurfi að skipuleggja.

Að sækjast eftir völdum í samfélaginu af einhverju öðru en valdagirnd og sjálfum sér til dýrðar er hins vegar fordæmalaust.

Jón Gnarr kemur alltaf út eins og hálfviti. Auðmjúkur hálfviti, þó. Breyskur og mannlegur gaur sem hefur aldrei keppt í Morfís.

Þegar hann var búinn að líkja sjálfum sér við Predator í íslenskri pólitík (líking sem ég held að fleiri skilji heldur en nokkuð sem nokkur annar borgarstjóri hefur sagt) sagði spyrill: Þetta er bara bull sem þú ert að segja!

What?

Menn mættu nú alveg skella þessu framan í Ráðherra/þingmenn/pólitíkusa þegar þeir eru búnir að segja setningar á borð við:
„Það er auðvitað alveg ljóst að það þarf að fara ofan í saumana á þessari ákvörðun og skoða allar hliðar málsins áður en ákvörðun er tekin um næstu skref í stöðunni.“

Heyrðu vinur, þetta er bara bull sem þú ert að segja!

Hvað ætli fyrrverandi borgarstjóri Davíð Oddsson hefði verið lengi að sjá til þess að sá spyrill starfaði aldrei framar á fjölmiðli?

Já, ég er víst að slóra. Og þó ekki... Besti flokkurinn er að taka sér stærra og stærra pláss í doktorsritgerðinni minni. Enda hvalreki þegar maður ætlar að rannsaka pólitíkst leikhús á ákveðinu tímabili að þá taki leikhúsið sig til og brjótist inn í pólitíkina.