Ég varð hugsi...
... í gærkvöldi þegar ég sat á öðrum af tveimur tónleikum sem sextánda Jazzhátíð Egilsstaða samanstendur af. Þessir tónleikar voru gargandi skemmtilegir, Árni Ísleifs hafði af sinni alkunnu snilld safnað saman ýmsum tónlistarmönnum og æft upp með þeim þrjú prýðileg sett. En...
...ég man þá tíð...
...þegar Jazzhátíð Egilsstaða hófst á fimmtudagskvöldi með geðveiku swingi, á föstudagskvöldinu var blúsað fram á rauða nótt, á laugardagskvöld voru súpertónleikar sem enduðu með djammsession fram á nótt og á sunnudegi og sunnudagskvöldi var slegið fram meiriháttar kanónum allsstaðar frá úr heiminum. Einhverra hluta vegna er búið að fjársvelta elstu jazzhátíð Íslands niður í tvenna tónleika. Það er...
...stórmerkilegt...
að á þessum gífurlegu uppgangstímum sem nú ríkja á Austurlandi skuli menn ríkja peningaleysi í menningarmálum. Árni er að fá skít og ekkert til að halda Jazzhátíð, styrkur Leikfélags Fljótsdalshéraðs frá bæjarfélaginu fór á árinu úr skitnum 350.000 kalli niður í enn skitnari 250.000 kall (sem dugar ekki fyrir hálfum leikstjóra) og allir sem hafa áhuga á því að draga bæjarbúa frá sjónvörpunum sínum rekast á einhvern ókleifan múr þar sem fjármunir eru ekki fyrir hendi. Þetta er sérstaklega athyglivegt...
...í ljósi þess...
...að hér væla menn ævinlega og endalaust um fólksfækkun, sem alkunn staðreynd er að kemur að miklum hluta til vegna þess að mönnum þykir skorta menningarlíf og afþreyingu úti á landi. Svo standa menn og klóra sér í hausunum yfir því hvernig á nú að standa að byggðastefnu. Engum dettur í hug að auka fjármagn til menningarstarfsemi.
Ég veit...
...að hér eru út um allt gangandi menningarhandsprengjur sem eru með milljón hugmyndir í maganum, kjark og þor til að framkvæma, en því miður, enga peninga. Á sama tíma og einhvern veginn er hægt að gera ýmislegt annað smálegt eins og að hafa uppi plön um menningarhús um allt land (undir starfsemi sem hangi hins vegar á horreiminni) byggja milljarða sendiráð í Berlín og svo mætti lengi, lengi, lengi, lengi telja.
Að Lokum...
...vil ég hrósa og þakka öllum þeim sem af gífurlegri ósérhlífni og elju standa í því meira og minna í sjálfboðavinnu að halda úti menningarstarfsemi um allt land. Einkum og sérílagi Árna Ísleifssyni fyrir Jazzhátíðina, svona fyrst það er nú þessi helgi. Ég vona bara að ráðamenn fari nú að vakna af dvalanum og átta sig á því hversu mikilvægur þáttur menningarstarfsemi er í því að halda landinu í byggð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli