Þetta var einna mest upplífgandi fundur sem ég hef farið á niður í Háskóla. Taugaáfallið lengist reyndar fram á föstudag, en vinnuálagið minnkaði allt í einu til muna.
Leiðbeinandi minn furðaði sig á því að það sem hann hafði af ritgerðinni minni endaði eiginlega ekki, heldur hætti bara. Ég furðaði mig á móti því að hann sæi ekki að ég ætti eftir að skrifa fullt, enda sýndist mér ég ekkert vera komin í næstum nóg í blaðsíðum talið. Í ljós kom að ég var búin að gleyma hinni plebbalegu reglu akademíunnar um tvöfalt línubil (regla sem ég þverskallaðist við að nota á meðan ég var í skóla og komst upp með) auk þess sem það sem ég ætlaði að nota í viðauka telur inn í þann fjölda. (Það eru þýðingar sem ég gerði úti í Montpellier og liggja makindalega í tölvunni minni, á einföldu línubili!!!)
Ritgerðarófétið hefur sumsé tekið þvílíkan vaxtarkipp og telur nú 124 blaðsíður, þarf ekki að vera nema 87. Ég kem út sem mjög alvarlega þenkjandi vísindamaður og kemur það til af alveg svakalega heimskulegum mistökum.
Kennarinn minn gerir sér líka greinilega alveg grein fyrir því að ég er plebbi, og píndi uppá mig frest fram á föstudag, hvað sem ég tautaði eða raulaði. Get sumsé gert alls konar lagfæringar og krúsidúllur og verið með smámunasemi sem mér datt aldrei í hug að ég næði.
Veit eiginlega ekki hvort ég á að vera glöð eða fúl, hlæja eða gráta, æla eða drulla. Einangrun verður allavega lengri en ég hélt og Leikfélag Hafnarfjarðar verður eiginlega bara að vera án mín fram að frumsýningu á Hamskiptum. Bæti þeim það upp með þeim mun óhemjulegri lesbíugangi á næstu mánuðum.
24.5.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli