31.5.04

Fer þó aldrei svo að mar fái ekki að "púlla" einn "allnighter" við lokafrágang ritgerðar. Lærifaðirinn liggur enn á síðustu þýðingunni minni, eins og gormur á bulli, og hótar að ég fái hana ekki í hendur til lokavinnslu fyrr en um18.00-leytið í dag. Er þó ágætlega búin undir eins og eina næturvinnu eftir um 36 tíma svefn. Búin að hella upp á kaffi og gera drög að búsetu á skrifstofunni minni eins lengi og þarf, þó með þeim takmörkunum að endanlegt útprent af öllu draslinu þarf að liggja í hólfinu hjá Guðna fyrir vinnu í fyrramálið. Vona samt að þetta verði nú ekki nema kannski svona rúmlega "halfnighter" þar sem mörg vötn hafa runnið til sjávar síðan ég framdi svoleiðis síðast og aldurinn e.t.v. eitthvað látið á sér kræla. Það er reyndar alveg svakalega þægilegt að vinna á kvöldin og nóttunni. Hægt að vera alveg endalaust í friði.

Á morgun gerist síðan hið Óendanlega Óútskýranlega Kraftaverk. Ég verð BÚIN með Mastersritgerðina. Hún verður liðin í aldanna skaut, og aldrei hún kemur til baka. Allaveg hef ég ekki huxað mér að lesa hana. Það er mín trú og vissa að þetta sé eitt þessara háfræðilegu verka sem getur gert hið skemmtilegasta viðfangsefni svo drepleiðinlegt að hún geti svæft hina áhugasömustu á 3 blaðsíðum. mest. En þannig eiga einmitt góð fræðiverk að vera. Ekki mega nú yfirlesarar samt vera að því að láta svæfa sig oft, ég held að einkunnir eigi að berast skrifstofu klukkan 11 á morgun. Á þessum tímapunkti er mér nokkuð sk... f..... sama hver mín verður. Morgundagurinn getur ekki orðið annað en gífurlega bjartur og fagur.

Annað kvöld verður síðan óskaplega merkilegt. Við hjónin verðum bæði í fríi, væntanlega tiltölulega óstressuð og líklega ekki nema hálf sofandi. Eftir það verður Tollinn (sem heitir skv. nýjustu heimildum Þórhallur...) að sýna öll kvöld þangað til ég yfirgef skerið. Athyglivert að sjá hvað kemur út úr því, en það verður líka í síðasta skipti í svo sem mánuð sem við hittumst að einhverju ráði. Kemur hann Þórhallur ennfremur til með að kynnast á mér splunkunýjum persónuleika, ég man ekki einu sinni hvernig þetta leit alltsaman út. Fyrir Ritgerðarmaníu. Hún hefur verið ríkjandi þáttur í minni persónugerð það sem af er þessu árþúsundi. Kannski leysist úr læðingi hið félagsfíkna partýskrímsl sem réð ríkjum á síðustu öld! Og þó... við lifum jú enn á tímum Eftir Höfuðringl þannig að ólíklegt er að drykkjusiðir taki á sig sitt fyrra form. Nema þá að Írar fremji einhvern heilablaðskurð á þeim vígstöðvum, kenni mér að drekka Guinness og Wisky (sem mér þykja hvorutveggja hið mesta ullabjakk) og geri loxins úr mér meðferðarhæfan alkóhólista... það má lengi vona.

En, best að dvelja ekki við dagdrauma. Halda sig við núið. Jámjám.
"Við skapandi listamenn eigum bara svo erfitt með að halda okkur við hið hlutbundna og veraldlega" *hristir hárið*
Mitt takmark í lífinu er að geta komist upp með svona setningar. Með fúlustu alvöru í öllu yfirbragði. Þannig að venjulegt fþæolk veit ekki hvort það á að æla eða drulla.

Þarf að þýða eina 50 titla á löngu týndum formúluleikritum frá 19. öld. Jæks!

Engin ummæli: