3.6.04

Tíðkast nú hin stóru skærin.

Herra Forseti vill að við kjósum um títtnefnt, um daginn, fjölmiðlafrumvarp. Eins gott að maður var búinn að mynda sér skoðun, og skrifa hana niður.

Sjálfstæðismönnum hvarvetna er samt greinilega alveg meinilla við að fólk almennt fari eitthvað að láta í ljósi álit sitt á málinu og nú gengur maður undir mann við að reyna að halda því fram að ekkert sé að marka ákveðin atriði stjórnarskrárinnar. (Auðvitað kalla þessir plebbar sig -fræðinga og þykjast ekki vera málpípur neins nema sjálfra sín, en maður skilur nú fyrr en skellur í hurðum.) Ég er allavega búin að glugga í þau atriði stjórnarskrárinnar sem lúta að þessum málskotsrétti forseta og sýnist menn þurfa að teygja sig helvíti langt ætli þeir að reyna að skilja hann á fleiri en einn veg.

Svona er hún:

"26. grein

Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu."

Ég meina... þetta liggur bara alveg ljóst fyrir.

Mér finnst það hins vegar alvarlegt mál ef forsætisráðherra ætlar að fara að túlka stjórnarskrána eins og honum sýnist.

Ja, ef hann gerir það þá áskil ég mér allan rétt til að gera slíkt hið sama. Ef maður þarf ekki að hlusta á stjórnarskrána, þá er nú hægt að gera ýmislegt skemmtilegt. Taka fólk til fanga og pynta það, slá eign sinni á hvað sem er og gefa skít í friðhelgi einkalífsins og jafnan rétt allra til alls.

Sé fram á að Írlandsferð mín verði einkar nytsamleg til að ná samningum við IRA um hernaðarlega aðstoð í komandi borgarastyrjöld.
Allavega finnst mér vissara að kaupa teygjubyssur í fríhöfninni á leiðinni til baka og gera lista yfir fyrirhugaðar gíslatökur, ef ekki verður búið að blása til atkvæðagreiðslu.

Nú, og ef menn ætla að fara að fetta fingur út í þessar fyrirætlanir sem birtast hér, þá má fela sig á bak við þessa grein, á meðan stjórnarskráin gildir:

"73. grein

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar [...] Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða."

Mér finnst stjórnarskráin bráðskemmtileg.

Engin ummæli: