1.6.04

4.36
Þetta er tvímælalaust versti tími hverrar ritgerðarsmíðar. Þegar maður situr með nokkur tilbrigði við önd í hálsinum og hjartað í buxunum og hlustar á afrekið prentast út, þorir ekki að koma nálægt tölvunni, eða prentaranum, eða loftinu í kringum það af ótta við að fyrir einhverj afskipti Andskotans fari margra ára erfiði forgörðum.

Bætir ekki úr skák að vera búin að vaka heila nótt. Ég þoli ekki að þurfa þess. Ekki það að ég verði ógurlega svefnþurfi. Get vakað eins lengi og ég þarf. En mér finnst hryllilega óhuggulegt að vera vakandi lengur en allir aðrir. Einhverra hluta vegna finnst mér það verra þegar það er bjart úti. Er sem sagt ekki myrkfælin, bara náttfælin. Þetta er líka verra þegar ég er innandyra. Segi reyndar ekki að ég væri neitt róleg að þvælast um miðbæ Reykjavíkur eða Montpellier um miðja nótt, en t.d. í Egilsstaða- eða Hallormsstaðaskógi gæti ég alveg ráfað fram undir morgun. Sennilega gildir þessi óhugnaður aðallega um staði þar sem fólk er, alla jafna.

Já, þetta lítur út fyrir að ætla að verða heillar nætur gaman. Sérstaklega þar sem ég þori ekki að setja í gang ljósritun fyrr en eftir 7, til að trufla ekki nágrannana á efri hæðinni. Sennilega heyra þeir ekki baun og Fyrir Frakkland hefði ég ekki verið svona nojuð, en franskir nágrannar innræta manni lífsseiga nágrannafælni. Merkilegt að þjóð sem elur á jafnmikilli leti, vinnur helst aldrei og eyðir meirihluta ævinnar í að gera helst ekkert, skuli verða svona arfabrjáluð ef minnsta hljóð heyrist úr hýbýlum nábúans, sama hvenær sólarhringsins er. Skemmtilegastur var þó nágranni Pöbbsins míns O'Carolans. Hann kvartaði m.a. yfir óhljóðunum í gosbrunninum sem staðarhaldarar þar létu setja fyrir utan. (Pínulítið vatnsgutl.) Ég pældi mikið í því hvort hann kvartaði við einhvern þegar það rigndi...

Nú er næstum helmingurinn búinn að prentast út. Enn hefur tölvukerfið ekki ákveðið að hrynja eða henda ritgerðinni minni út í hafsauga, prentarinn ekki orðið geðveikur eða ákveðið að hann vanti eitthvað sem ég á ekki, ekki kviknað í húsinu, komið jarðskjálfti eða flóð. 7, 9, 13. Ófétinu kom ég niður í um 90 síður, fyrir rest. Það kostaði reyndar talsverðar tilfæringar, hef aldrei lent í því áður að þurfa að stytta akademísk afrek mín. Var síðasti séns að lenda í því.

5.01
Heimurinn ennþá steinsofandi og alveg eins og allir séu horfnir af yfirborði jarðar. Mikil lifandi skelfingar ósköp hlakka ég til þegar einhver vaknar, sem ég heyri til. Þetta er svo undarleg fóbía. Á daginn finnst mér fínt að vera ein míns liðs, hvar sem er. Líka skárra á nóttunni ef það er dimmt. Er sennilega alls ekki rétta týpan til að vinna næturvaktir eða standa í göltri yfirhöfuð.

Líklega gætu þó Agnes og Einar verið vakandi niðri í Ástralíu. Líður strax betur við tilhuxunina.

Engin ummæli: