9.5.04

Gerast nú hin stóru skærin.
Bloggleysi hefur komið til af einhverju óumbeðnu annríki og svo almennu verkfalli skrifstofubúnaðar í vinnunni síðasta föstudag. Það lýsti sér m.a. í því að internetið fór í verkfall og lét eins og það væri ekki búið að finna það upp. Sama hvað hver gerði. Á sama tíma flippaði vítisvélin yfir og heimtaði viðgerðarmann. Við vorum í hálfgerðu taugaáfalli allan daginn og vissum ekkert hvað við áttum við okkur að gera. Ég þurfti m.a. að rifja upp færni mína á símaskrá úr pappír, og komst að því að hún er illa úrelt. Hryllilegt þegar tæknin fer að stríða manni og upp kemst hversu algjörlega hjálparvana maður er án hennar. Sé fram á að drepast beina leið ofan í klofið á mér þegar siðmenningin líður undir lok. (Og það er nú bara tímaspursmál! Hvernig fór ekki fyrir Rómverjum?)

Fór á "Kleinur" (eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar) í Kaffileikhúsinu gær. Gjörningur þessi eru 5 leikþættir sem allir fjalla um sömu persónuna og hans tengsl við kleinur. Þeir segja líka ævisögu hans afturábak. Algjör gargandi snilld að öllu leyti, enda öngvir öjmingjar að verki. Sýningar verða í kvöld og næsta sunnudagskvöld kl. 20.00.

Annars, búin að eyða talsverðum tíma í að mála og vesenast í húsi Leikfélags Hafnarfjarðar og brúka það sem afsökun fyrir því að vera ekki að skrifa helv... ritgerðina. (Var að komast að því við að lesa bloggið aftur í tímann að ritgerðin er búin að vera aðalumfjöllunarefni frá upphafi. Spurning hvort það verður ástæða til að halda þessari síðu við lengur þegar henni lýkur. Verður altént minna um nöldur, hverskonar.)

Svo braut ég blað í leikritunarsögu minni í gær. Áðurnefndur Þorgeir Tryggvason er að leikstýra einþáttungi eftir mig þessa dagana, en hringdi í mig í gær og pantaði nýjan endi. Ég var ekki neitt nálægt tölvu, svo skrifaði hann á símann minn og sendi æruverðugum leikstjóra á sms formi á meðan ég var að horfa á Liverpool taka Birmingham City í nefið. Já, framtíðin er komin. Svo var ég náttlega að vitleysast til að taka að mér að sjá um einhver búningamál fyrir það stykki þannig að nú fer að vanta meiri tíma í sólarhringinn. Sjitt.

Það er fyrsti samlestur á hinu ógurlega skemmtilega leikriti "Beisk tár Petru von Kant" eftir Fassbinder, sem Leikfélag Hafnarfjarðar ætlar að setja upp í sumar. Nú á að fara að kasta, og ég mundi næstum sofa hjá leikstjóranum til að landa ákveðnu hlutverki í þeirri sýningu. Næstum. Ætla allavega að mæta og lesa alveg hryllilega vel og reyna að þykjast vera alveg gífurlega efnileg leikkona. (Hlýt að geta leikið það...?)

Allavega, ætti að vera að... júnóvott. Best að fara að grípa réttri hendi í rassgatið á sér og klára helvítið!

Engin ummæli: