Júró
Er að horfa á undankeppni Júrívision. Skildi ekki hrifningu manna á Finnska laginu til að byrja með... en nú rekur hver hroðinn annan og ég er aðeins að byrja að fatta þetta. Illskást er þó það besta sem ég get sagt. Og mikið fannst mér fyndið þegar glaði auminginn frá Sviss rak míkrófóninn í tennurnar á sér. Þegar fólk reynir að fremja tónlist með þeim boðskap að maður eigi að klappa saman höndum og fagna, algjörlega út í bláinn, þá má það nú bara mín vegna gleypa hljóðbúnaðinn eins og hann leggur sig.
Svo eru herlegheitin í Tyrklandi.
Þá rifjuðust upp fyrir mér fordómar gagnvart Tyrkjum sem innprentuðust í mig úr öllum áttum úti í Þýskalandi. Í fyrsta lagi voru með mér á námskeiðinu strákur frá Grikklandi og annar frá Kýpur, grískumegin (eða einu megin, eins og hann vildi meina). Þrátt fyrir að á námskeiðinu væri fólk frá ýmsum löndum fyrrverandi Júgó og Sovét, sem voru þvílíkt að brytja hver annan niður örfáum árum áður, þá var þetta eini milliþjóða rígurinn sem ég varð vör við.
Svo voru greyis Tyrkirnir svo óheppnir að vera með alveg svakalega leiðinlega sýningu á hátíðinni. Hversu áhugavert getur mögulega verið að horfa á frekar statíska "samræðu" mynd á tjaldi og tvo leikara standa á sviðinu og tala inná og drekka kaffi og gera EKKERT annað. Þar að auki var þessi sýning í litlum sal og við námskeiðsplebbar sátum í tröppunum. Eini kosturinn við þessa sýningu var sá að á tjaldmyndinni var teljari þannig að maður gat séð hvað var mikið eftir.
Tyrkir bitu svo endanlega höfuðið af skömminni á lokadegi námskeiðsins þegar lokalesturinn okkar fór fram í hátíðartjaldi. Um 3 mínútur inn í lesturinn komust þeir í undanúrslit í HM og upphófst þá svo gífurlegt bílflaut út um allt Þýskaland að varla heyrðist mannsins mál það sem eftir var.
Nei, Tyrkir eru ekki uppáhaldsfólkið mitt. Enda fannst mér lagið sem vann í fyrra glatað.
Og ég gæti ekki þekkt þessi lög núna hvert frá öðru þó ég ætti að bjarga lífi mínu. Hvað er þetta með Júró? Af hverju eru allir að reyna að búa til einhverja undarlega stíliseraða flatneskju sem ekki þykir in eða skemmtileg í neinum menningarkima í heimi? Hvað er að því að senda bara tónlist? Bara skemmtilega tónlist? Og láta flytja hana svona sosum eins og tónlist er almennt flutt? Ég er ekki frá því að dansarnir í Júró séu nefnilega líka alveg einstakt listform útaf fyrir sig. Svo er líka eitthvað svo krípí við þessi tilgerðarlegu bros á hverju fési. Og hvað er þetta með að láta Gísla Martein kynna ár eftir ár? Hann er sosum allt í lagi í þessu, ekki samt það bestur að hann eigi að vera æviráðinn í starfið.
Hmmm. Lagið frá Möltu hefði kannski getað verið ókei, ef konan hefði kunnað að syngja jafn vel og kallinn og ef ekki hefði verið fyrir þessi ógurlegu gerfibros. Það var eins og þau væru að segja "Við ætlum að þykjast vera ógurlega kátt og almennilegt fólk, en við höfum drepið og munum drepa aftur..."
Já, óhamingju Júró verður allt að vopni. Ekki þar með sagt að ég ætli ekki að fylgjast með á laugardaginn. Það geri ég sko, með gífurlegum áhuga. En nöldrið yfir því hvað þetta er alltsaman vont og leiðinlegt og að Júróheimurinn versnandi fari er náttlega hin besta skemmtan. (Æ,æ. Grikkir ekki alveg að halda lagi... enda í Tyrklandi og örugglega alveg ógurlega hræddir.)
Best að fara að reyna að beina ritræpunni í réttan farveg...
Hahaha! Ruslana frá Úkraínu! Nýtt nafn sem verður að nota næst þegar eitthvað vantar sem á að hljóma Rússneskulega.
Ókei. Nú fer ég að ritgerða.
12.5.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli