Gleðilegan konudag, í gær.
Ég held ég hafi ekki munað eftir bóndadeginum. Allavega gerði ég örugglega ekkert með hann. Ekki dag Valentínusar heldur, nema að lesa um frumlegar valentínusargjafir Ylfu og Sævars. (Sævar gaf konunni sinni 20 marka barn, sem hún þurfti að fæða sjálf, og Ylfa sendi manninn sinn í vönun.) Mér datt ekkert frumlegt í hug.
Til þess að konudagurinn færi nú ekki sömu leið ákvað ég að þrífa klósettið mitt í tilefni daxins og prjóna úr óvenjubleiku. Hvorttveggja fannst mér kvenlegt. Í gærkvöldi hringdi síðan síminn minn, sem þarf líka stundum að þykjast vera dyrabjalla. Útifyrir stóð söngkona sem hafði haft þau forréttindi fram yfir sjálfa mig að hafa fengið að þreifa á manninum mínum á konudaginn. Hún var með pakka handa mér. Því fylgdi myndarlegt, þykkt og rómantískt bréf.
Þar með er Rannsóknarskipið mitt búið að koma mér tvisvar til að grenja af tómri rómantík, án þess að vera nokkurs staðar nærri í eigin persónu. Hér með ætla ég að monta mig, ég á besta mann í heimi! Hann er í einu og öllu til fyrirmyndar og eftirbreytni.
Viðbót: Rétt að taka það fram að smábáturinn sýndi víst verkefninu líka talsverðan áhuga og áréttaði rétt minn til konudagsgjafar á sínu heimili í tvígang. Ekkert að uppeldinu á bænum heldur.
21.2.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Arg og öfund... ætli maðurinn þinn geti laumað svo sem eins og smá broti af innri rómantík til mannsins míns?
Mitt núverandi samband hefur valdið mér hugljómun af því tagi að ég hef misst alla virðingu fyrir mönnum sem telja það ofverk sitt að vera almennilegir við konuna sína og þjónusta hana að hennar skapi á rómantískan hátt svo mikið sem einn dag á ári (og þó þeir væru tveir eða þrír). Svoleiðis drulluhakksháttur er ekki kominn til af neinni "órómantík" heldur leti og sjálfselsku og ætti hvergi að þrífast. Og hafi menn það bara.
Skrifa ummæli