4.5.05

Óhamingjan

Nú er sól úti.
Þá gengur maður hægar.
Og þegar maður gengur hægar tekur maður meira eftir fyllimönnunum.

Fyllimennirnir sitja gjarnan á bekkjum og ræða óhamingju sína. Eða þá að þeir ráfa um miðbæinn og huxa um óhamingju sína. Eða að þeir standa fyrir utan kaffi Austurstræti og æla óhamingju sinni. Fyllimennirnir eru Fórnarlömb. Oft Fórnarlömb Vonds Fólks, Fjölskyldunnar, Samfélagsins. Þeir eiga það sameiginlegt að eiga ýkt bágt.

Einu sinni þekkti ég mann í Glaðskógum. Hann átti Mjög Bágt. Hans Bágt lá í því að foreldrar hans höfðu skilið einum 20 árum fyrr. Vegna þessa Bágts þurfti viðkomandi að drekka sig fullan öll kvöld og helst reykja ljótt meððí. Jafnvel setja hvítt í nefið. Auðvitað er sennilega vont og leiðinlegt þegar foreldrar manns skilja. En stundum held ég samt að helsta óhamingja Bágtmannsins í Glaðskógum hafi verið sú að hafa ekki betri ástæðu en þetta til að drekka, reykja ljótt og setja hvítt í nefið.

Fyrr þekkti ég annan. Hann varð fyrir því einu sinni að pabbi hans dó, eftir langa sjúkralegu. Svo hætti líka einu sinni með honum stelpa. Út af þessu öllu saman þótti manninum ekki borga sig að vera kátur eða bjartsýnn. Það væri hvort sem var örugglega alveg að fara að gerast fleira slæmt. Það var líka alveg rétt hjá honum. Ég veit að síðan er búið að gerast margt fleira slæmt. Um þennan mann er hugtakið tragedíurúnkari uppfundið.

Löngu fyrr þekkti ég mann sem trúði því að til þess væru vítin að vaða í þeim. Hann ákvað, án nokkurs Bágts, að verða dópisti í útlöndum. Og hefur náð góðum árangri í því, eftir því sem ég kemst næst. Hann er sennilega líkur fyllimönnunum, en ég held hann sé ekki mjög upptekinn af óhamingju sinni, nema svona þegar hann þarf að nota hana til að gera eitthvað reglulega heimskulegt.

Ég held helst að slæmir hlutir komi fyrir alla, svona annað slagið. Og ekkert við því að gera, því miður. En menn geta ráðið hvort þeir þurfa að vera óhamingjusamir út af því á hverjum degi alla ævina.

Og fyllimennirnir halda áfram að sitja á bekkjunum. Ræða óhamingju sína. Gubba og kúka á sig. Og eiga bágt. Kannski finnst þeim það gott.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

sumum líður víst best illa...

Gadfly sagði...

Eins og vinkona okkar Spúnkhildur orðar það; eymd er valkostur. Annars á ég miklu meira bágt en fyllikallarnir því ég sit uppi með páfagauk gegn vilja mínum og ólíkt öðru karlkyns er ekkert sem bendir til þess að hann hafi í hyggju að fljúga burt af sjálfsdáðum. Ég er að hugsa um að gerast kókaínfíkill út á það. Mér gengur allavega ekkert að vera fyllibytta og hef ég þó ærnar ástæður til þess. Til dæmis er drasl heima hjá mér og svo er naglalakkið farið að flagna.