13.7.05

Pampers eða Libero?

Er spurning sem skal algjörlega látið vera að svara að svo stöddu. Hins vegar vakti athugasemd Huldu hér nokkrum póstum neðar forvitni mína varðandi stjörnumerkjalega samsetningu Afkomandans. Auðvitað er ekki alveg hægt að staðsetja stjörnukortin nákvæmlega eins og stendur, en þó má finna ýmislegt út, verði þetta alltsaman eins og lítur út fyrir. Og nú skal aldeilis velta sér uppúr gerfivísindunum.

Eins og Hulda benti réttilega á verður hann/hún/það steingeit. Eins og Bára syss og Heiða Skúla og Berglind og ótrúlega margir fleiri sem ég þekki. Mér sýnist þetta koma í sama stað niður þó maður brúki undarlegu stjörnumerkin með naðurvaldanum. Þar með bætist jarðarmerki í flóru heimilisins sem þegar inniheldur eitt eldmerki og tvö vatns. (Hrút, sporðdreka og lítinn krabba.) Ætti að vera ágætt að fá jarðtengingu inní þetta alltsaman.

Samkvæmt kínverskri stjörnuspeki eigum við von á hana. (Núna er ár hanans og því lýkur ekki fyrr en um kínversk áramót sem eru í febrúar.) Hanar eru algengir í minni fjölskyldu, bæði mamma, Hugrún syss og Sigurvinn litlibróðir eru þannig. Var að lesa mér til um þessa tegund, en þetta ku vera sviðsljóssjúkir snyrtipinnar. (Soldið væld, en samt þannig að snyrtimennskan sé í fyrirrúmi...) Þeir vilja helst hafa alla athyglina á sér en að sama skapi hafa allt hornrétt.

Þannig að, þessi afkomandi á semsagt eftir að slást stanslaust við móður sína um athyglina og kemur ennfremur til með að una sér fremur illa innan um óreiðuna á heimilinu. Herbergi hans/hennar/þess verður ævinlega hið snyrtilegasta í húsinu en líklegt er að erfingi þessi tolli ekki lengi í óreiðunni í foreldrahúsum heldur stingi af með snyrtilegri meyju fljótlega uppúr unglingsárunum. Saman munu þau svo stunda nám í hag- og viðskiptafræði og jafnan starfa við bókhald auk þess sem erfinginn verður líklega í áhugaleikfélagi til að finna athyglisþörfinni farveg. Honum mun þó líka illa að leika með foreldrum sínum þar sem þau eru svo óskipulögð, en koma vel saman við Rúnar Lund og líklega stundum vera gjaldkeri. Hann/hún/það mun líka eiga sitthvað sameiginlegt með öllum fjölskyldumeðlimum móðurfjölskyldu sinnar, utan móður sinnar, þar sem það gengi samanstendur af hornréttum ferköntum og hönum.

Þar með er framtíð Heiðlaugs litla Svan algjörlega opin bók.

PS. Svandís og Heiða, bæðevei, það er ekki fokkíng glæta að þetta nafn komi til álita nema sem vinnuheiti í flimtingum. Hef ekki huxað mér að fórna afkomendum mínum á altari eineltis áður en þeir fæðast. Bara svona til að hafa það alveg á hreinu. ;-)

3 ummæli:

Varríus sagði...

"Þorgeir Ármann" er enn laust...

Nafnlaus sagði...

Huh.. auðvitað verður þetta stelpa!! Heiðlaug Svana kæmi kannski til greina ef Ylfa Mist væri ekki flottasta nefn ever... eða...

Þórunn Gréta sagði...

Nafnið Ármann Sævar ætti að tryggja ykkur lögfræðing. Þorgeirs nafninu mætti skeyta framanvið að skaðlausu. Svo var mannanafnanefnd að samþykkja í gær góð og gild nýmóðins nöfn á borð við Ljósálfur og Hillaríus (það yrði reyndar afskaplega hvimleitt að bera þetta nafn og verða síðan óvart ekkert fyndinn... Hillaríus og hagfræði getur ekki átt saman) Klementína, Þoka, Betsí og Bíbí.