15.8.05

Dásemd...

...daxins er Rannsóknarskipið sem kom heimili mínu í stand um helgina. Í staðinn þýddi ég fyrir hann commentary á zombie-mynd. Svona verkaskipting líkar mér einstaklega vel. Það er orðið fáránlega fínt heima hjá mér án þess að ég hafi lyft til þess fingri, og ég verð sennilega í allan vetur að læra á eldhúsið.

Og svo er vatnslaust á Bandalaxskrifstofunni í dag. Sem þýðir, ekkert kaffi. Sem er hörmulegt. Þó bót í máli að það er allt sundurgrafið fyrir framan og nánast ófært ef menn vilja koma í kaffi, þannig að það er líklega bara hörmulegt fyrir mig.

Um Hina Kvenlegu Minniháttarkennd


Og einhverjir fengu víst hlönd fyrir hjörtun sökum alhæfinga um kvenfólk í síðustu færslu. Best að langhunda. Það er nú svo að ég hef velt þessu mikið fyrir mér. Allar götur síðan við Berglind sátum uppi í brekku í Þórsmörk og veltum því fyrir okkur hví ókunnukt kvenfólk virtist oft svona forkastanlega leiðinlegt, þegar maður heyrði á samtalsbrot.

Það er nefnilega oft þannig að kvenfólk, meira að segja af minni kynslóð, talar varlegar. Passar sig meira, í orði og æði. Vandar sig og véfengir gjarnan eigið ágæti að ástæðulausu. Vissulega var kynslóð móður minnar ver haldin af þessum kvilla. Svo ekki sé minnst á kynslóð ömmu minnar sem helst sagði aldrei annað en "fyrirgefið hvað þetta er lítið og ómerkilegt." Fátt fer meira í pirrur mínar heldur en þegar maður á í samtali við einhverja konu af þeirri kynslóð, sem hefur frá mörgu merkilegu að segja, en er stöðugt að púnktera samtalið með því að baktryggja sig og fyrirverða fyrir alla skapaða hluti.

Þessu ber sem betur fer æ minna á með hverri kynslóð. En í sambandi við starfshæfni, að sjálfsögðu fer ekki hjá því að sé viðkomandi stöðugt með hjartað í buxunum, innst inni, yfir því að gera eitthvað vitlaust eða illa, þá er engin hætta á því að hann sinni starfi sínu eins vel og hann getur. Hin kvenlega minniháttarkennd lætur þolendur nefnilega eyða talsverðri orku í að skammast sín fyrir tilvist sína og gagnrýna eigin gjörðir u.þ.b. aðra hverja mínútu.

Það er engin spurning um að þetta var nákvæmlega ástæða þess að fasteignasalinn minn fékk taugadrullu þegar hún sá eitthvað sem hún hafði ekki séð áður í sölupappírum, og dömpaði geðbólgunni beint á mig í stað þess að setjast niður og athuga málið í rólegheitunum, eins og hver manneskja án kvíðaröskunar hefði gert.

Þess vegna áskil ég mér allan rétt og meira til á að kenna fyrirbærinu kvenlegri minniháttarkennd um þetta fokkopp alltsaman, sem og svo mörg önnur, og held því ennfremur fram að hið sama sé það sem stendur kvenréttindabaráttu fyrir þrifum þessa dagana.
Mér finnst menn eiga að venja sig af þessu, þetta er heimskulegt.

P.S. Tekið skal fram að hvorki ég sjálf né frú Ringsted erum haldnar þessum kvilla og erum því ekki að kasta grjóti úr neinu glerhúsi. Sem betur fer finnst inn á milli kvenfólk sem sannfært er um eigið ágæti og gengur ekki með neinar ranghugmyndir um að biðjast afsökunar á tilvist sinni.

6 ummæli:

Þórunn Gréta sagði...

Fyrirgefðu að ég sé að troðast hérna inn með mín ómerkilegu innlegg.... ég er orðin margs vísari um kvenlegar kvíðaraskanir, fæ ég pistil um hið yfirvegaða karlmannlega eðli í framhaldinu?

Sigga Lára sagði...

Karlmenn hafa vissulega örugglega raskanir, en ég veit ekki hvort einhver ein er jafn gegnumgangandi og þessi. Get enda illa rannsakað það þar sem ég hef aldrei skilið upp eða niður í því kyni.

Nafnlaus sagði...

Já, kvíði á sér margslungnar birtingarmyndir, t.d. sem yfirborðsrósemi, algerlega velstífuð pottþéttni, meðalltáhreinumeðanRómbrennur gaur (bæði kven- og karlkyns), hef m.a.s. rekist á svona hjá fasteignasala..karlkyns ...

Ásta sagði...

Ég kannast við þessa meðalltáhreinumeðanRómbrennur týpu. Einn slíkur sem ég komst í kynni við stakk af til Spánar frá manni, mús og gjaldþrota fyrirtæki (og skuldaði mér laun helvískur.) En fram að því var auðvitað allt í himnalagi.

Sigga Lára sagði...

Málið er að ég vil heldur hafa mína fasteignasala meðalltáhreinumeðanrómbrennur. Ef Róm er að brenna get ég hvort sem er trúlega lítið gert. Eins gott að komast bara að því eftir á. Þá er maður allavega ekkert að panikka fyrr en ranveruleg ástæða er til.
Það fer hins vegar meira í mínar pirrur æpandi á mann úlfurúlfur í tíma og ótíma og gerandi úlfalda úr ímynduðum mýflugum þegar ekkert er að nema (huxanlega ímynduð) vankunnátta í starfi!

Nafnlaus sagði...

Ég las þetta meðal-táhreinir...
og tengdi fullkomlega.

Góðir pistlar, alveg x-ellent.