24.8.05

Tímasvarthol?

Sá á Ylfubloggi að hún var að tjá sig um skyld mál og þau sem hafa verið að valda mér heilabrotum undanfarið. Nú er komið á dásemdarástand á mínu heimili, síðan flotinn flutti inn. Er sá ráðahagur mér til stanslítillar gleði og hamingju. Nú eru þeir líka báðir einkar sjálfbjarga einstaklingar og sjá gjarnan vel hvor um annan, enda vanir því.

Þess vegna er ég ekki alveg að skilja hvað í veröldinni verður um tímann minn þessa dagana. Nú eru þeir feðgar ævinlega til þjónustu reiðubúnir í hvívetna ætti ég þess vegna að vaða í tíma til allskyns, en ég bara geri það ekki. Það er eins og allir í heimilishaldinu séu staddir í tímasvartholi og dagurinn endist okkur hreint aldrei til alls sem við ætlum að gera. Stundum þarf ég meira að segja mikið að vanda mig ef ég ætla að ná því að næra mig og Kafbát oftar en einu sinni á dag. En það ku vera skylda.

Heimilið er enn meira og minna ofan í kössum, þvottur hangir á snúrum vikum saman þar sem enginn má vera að því að taka inn, og allt kaffihangið sem ég hugði á þegar ég yrði komin í nábýli við Nönnu og Nornabúðina hefur lítið látið á sér kræla. Og leikárið ekki einu sinni byrjað af viti.

Og ég er engan veginn að skilja hvert tíminn minn fer. Ég meina, það er meira að segja UPPÞVOTTAVÉL á heimilinu. Lúxus sem er nýr í mínu lífi. Þetta óskilgreinda "heimilishald" virðist bara vera allt í tímasvartholum sem gleypa tímann sem maður áður eyddi í að leika sér allan daginn og hanga á kaffihúsum með vinum sínum og þyrfti þessa dagana að eyða í að taka upp úr kössum.

Þarf bókstaflega að taka mér sumarfrí í næstu viku til að taka til í eldhúsinu mínu. (Þar er t.d. hamar á gólfinu. Sem er búinn að liggja þar lengi. Af því að enginn hefur mátt vera að því að taka hann upp.) Kem aldrei til með að skilja hvernig fólk í fullum vinnum fer að þessu. Ekki skrítið að Íslendingar sé allir á þunglyndislyfjum með bauga niður að hnjám.

Er allavega helst á því að hleypa Rannsóknarskipi bara hreint ekkert út á vinnumarkaðinn. Hvað sem tautar og raular. Enda situr hann myrkranna á milli inni í skáp og þýðir og þýðir, allur í verkefnum upp fyrir haus. Ég ligg í sófanum og prófarka og prófarka og svo skiptumst við á upplýsingum um málfræði og stafsetningu.

Draumalíf, svona fyrir utan tímasvartholin.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eins og ég sagði.. velkomin í maukið!!
Ylfa

Sigga Lára sagði...

Já, ég er bara mjög forvitin að vita af hverju það samanstendur... Er þetta kannski einhver sultuuppskrift?

Sigga Lára sagði...

Hmmm. Ég hef nú bara ekki einu sinni spáð íða...

Nafnlaus sagði...

Tímasvarthol. Nú verður margt skiljanlegra fyrir mér.

fangor sagði...

einmitt. þessu hef ég líka verið að velta fyrir mér. kannski skápurinn góði búi yfir tímasogshæfileikum sem hann nýtir til að halda utan um hugsanirnar..