21.12.05

Nú er heima

Og Rannsóknarskip búinn að vera uppi á annarri í allan dag. Uppi á annarri hæð, þ.e.a.s., að þrífa, svo þar verði nú allt hreint og fínt ef mér dettur í hug að missa legvatnið þar og láta sjúkraflutningamenn missa mig niður stigann.

Húseigendur á leið í bæinn og rífandi gangur í öllusaman.

Hef klikkað alvarlega á einu þennan jólaundirbúninginn. Flotinn hefur enn ekki hugmynd um nöfn eða röð jólasveinanna. Þykir mér það afleitt, en hef bara hreint ekki staðið mig í að hlýða yfir eða hafa húslestur á jólasveinavísum hvert kvöld. Eins og ég ætlaði þvílíkt að gera.

Ojæja. Það koma jól eftir þessi jól.

7 ummæli:

frizbee sagði...

Ég veit allavega að Stekkjastaur er fyrstur, Stúfur annar og Kertasníkir síðastur. The rest is up to you

Sigga Lára sagði...

Er stúfur annar? Ja, jólasveinarnir úr Surtsey koma kannski í annarri röð en þeir austfirsku.

Ég var hins vegar að vona að bjúgnakrækir myndi stela bjúgnum af löppunum á mér.

Nafnlaus sagði...

Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir.... svo voru Askasleikir og Hurðaskellir um helgina síðustu (þá var sko bróðurdóttir mín í heimsókn)... og svo endar allt á Kertasníki... eins og Ástþór segir réttilega.

Gleðileg jól til flotans

Nína

Nafnlaus sagði...

Stekkjarstaur, for helvede.

Sigga Lára sagði...

Annars er uppáhaldsjólasveinninn minn nú alltaf Lungnaslettir, sem hafði fyrir sið að berja börn með blautum lungum. Um hann og fleiri forna og skemmtilega jólasveina má lesa í Sögu daganna.

Svo er þetta rugl með hvort þeir séu 9 eða 13. Mér finnst nú eiginlega söguskýring sem ég held sé uppúr Óberminu vera best. Að þeir séu 13 talsins, en einn og átta á hæð.

Nafnlaus sagði...

Um daginn kom í kaffi til okkar kona rúmlega fertug. Sonur minn í miðið, fimm ára, hafði á orði að best væri að drífa sig í háttinn því Pottaskefill gæti farið að koma. „Potta-hvað“? hváði konan. „Pottaskefill“ sagði sá stutti. „Skefill?“ endurtók konan með þrem spurningamerkjum. „Er það jólasveinn? Heitir hann það?“ „Já“, sögðum við feðgarnir, pínulítið efasemdarlegir á svipinn og gjóandi hvor á annan. „Og kemur hann í kvöld?“ hélt konan áfram. „Já“ sögðum við aftur. „Ég hef einhvern veginn aldrei lært þessi nöfn eða yfirleitt spáð í að þeir kæmu í einhverri sérstakri röð“ sagði konan. „Er það ekki?“ sagði ég eins kurteislega og ég gat og studdi hönd undir hökuna til að missa hana ekki niður á bringu. Ég hef mikið velt fyrir mér á hvaða plánetu þessi kona hefur lifað. Rammíslensk. Ég vissi svo sem að margir ættu í basli með röðina, en þetta var einum of mikið áhugaleysi fyrir minn smekk. Klikk á grundvallaratriðum.

Stúfur er alls ekki annar frizbee. Nína er með fjóra fyrstu rétta, svo kemur Pottaskefill, þá Askasleikir og Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Kjötkrókur og Kertasníkir. Bara svo það sé á hreinu.

Sigga Lára sagði...

Einmitt. Fyrir mér væri að muna ekki röðina á þeim eins og að muna ekki röð vikudaganna eða mánaðanna. (Kjötkrókur hét reyndar Ketkrókur í minni sveit.)

En ég hef síðan lært að þetta er hreint ekki á allra vitorði og ég bý trúlegast að því, í þessu samhengi, að hafa alist upp nálægt afa og ömmu sem nenntu að lesa fyrir mig jólasveinavísurnar afturábak og áfram, allan ársins hring þegar mér sýndist svo.