Í dag er fyrirhugað að gera alþrif á heimilinu. Enda eru að koma páskar, gestir og allskyns. Já, og eins gott að ég muni að skilja einhversstaðar eftir lykla handa Báru. Á morgun verður svo haldið norður yfir heiðar.
Nokkrar Freigátusögur:
Í vikunni varð Freigátan fjórtán. Mánaða. Ég hugði að nú væri tímabært að innræta henni kvenlega færni. Við bjuggum fallega um dúkkuna hennar í dúkkuvagninum og svo var haldið af stað í gönguferð um stofuna. Skipti engum togum að Freigátan hljóp hratt með vagninn. Klessti á borð, stól og vegg og hafði gaman af. Að því loknu missti hún áhugann.
Í gær var ég að reyna að vinna smá, og leyfði henni að vera úti á svölum. Þar á hún forláta sparkbíl sem við fengum í kaupbæti með hjólhestinum góða. Til að byrja með var hún nú eitthvað á ferðinni út og inn, en svo heyrðist ekkert eða sást góða stund. (Þegar það gerist er gjarnan eitthvað grunsamlegt á ferðinni. Venjulega er vissara að gá, en ég mundi ekki til þess að neitt hættulegt væri þarna úti, allt nýþrifið og svona, þannig að ég notaði bara stundarfriðinn til að vinna.) Svo kom hún í dyrnar.
Ég var búin að gleyma að það var stór blómapottur með mold úti á svölum...
Skemmst frá því að segja að alklæðnaðurinn fór í þvottavélina og sú stutta hafði takmarkaða lyst á kvöldmatnum.
Svo erum við að fara norður. Byrjum á að fara í sveitina. Það eru komin tvö lömb þar. Og ætlunin er að sleppa Freigátunni lausri úti á túni og gá hvað hún gerir þegar ekki eru bílar og önnur ó-ó í allar áttir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Eins og blogger segir hér í vördverífakesjón: ahosj!!!
Svona eru börnin.
Skrifa ummæli