28.3.07

Ólánstík?

Í haust fór ég að hjóla. Ég hjólaði og hjólaði. Svo kom hálka. Ég var alveg að fara að fara með hjólið mitt niður í hjólageymslu. Á meðan stóð það ólæst á veröndinni hjá mér. Þangað til því var stolið. Þannig fór um sjóferð þá.

Reyndar hafði mig alltaf, í laumi, langað í öðruvísi hjól. Konuhjól. Með fótbremsum.

Mikil var því gleði mín í gær þegar ég var að vafra í tilgangsleysi á internetinu og rak augun í markaðinn á barnanet.is. (Mig langar nefnilega líka í laumi í nýjan barnavagn. Á loftdekkjum. Jafnvel systkinavagn. Þó ég sé ekki einu sinni orðin ólétt... Ókei, sagan er ekki byrjuð og ég er strax búin að ljóstra upp heilmikilli geðveiki.)
Gleði mín var ekki vegna tilvistar barnanetsins (sem ég væri þó trúlega alveg eins með síðu á, ef ég nennti að halda úti sérbloggi fyrir börnin mín) heldur yfir því að þar sá ég auglýst þetta líka glæsilega kvenhjól. Lítið notað, á lítinn pening, barnastóll fylgir. Ég setti mig umsvifalaust í samband við eiganda.

Um kvöldið lagði ég síðan í langferð til Grafarvogs, en þar var hjóltíkin búsett. Allt gekk vel þar til komið var í Grafarvog. Þar var sama hvernig ég leitaði, ég gat ekki fyrir nokkurn mun fundið götur sem enduðu á -engi. Sérstaklega ekki þar sem ég var búin að ímynda mér að þær væru. Þar var kirkjugarður. Ekki bætti úr skák að Grafvogingar voru allir að flýta sér heim til sín (og vissu hvar það var) og höfðu litla þolinmæði í litlu villtu konuna sem ók hægt og las á öll götuskilti. Eftir lahangan langan rúnt um Vog Grafarinnar þveran og endilangan gafst ég upp og hringdi í hjóleiganda. (Ég spyr ALDREI til vegar. Að því leyti er ég karlmaður.) Hún lóðsaði mig á réttan stað.

Hjóltíkin var síst óyndislegri í eigin persónu heldur en á myndum. Heldur stærri, samt. Um tíuleytið í gærkvöldi mátti sjá tvær konur á undarlegum stað í Grafarvogi reyna að troða allt of stóru reiðhjóli inn í allt of lítinn bíl. Þá fór að snjóa. Á heimleiðinni lærði ég að þó maður sé með hálft reiðhjól hangandi út úr afturendanum, og enginn annar sé á ferli, þykir reykvískum ökumönnum síst minna mikilvægt að reyna að nudda á manni afturendann með stuðaranum. Merkilegt.

Í morgun vaknaði ég snemma. Ákvað að það væri ekkert of mikill snjór til að hjóla í vinnuna. Flýtti mér svo mikið að ég gleymdi bæði gleraugum og hjálmi og skiptilykli. Ætlaði "venjulegu" leiðina og taka loft í dekkin á "venjulegu" bensínstöðinni. En, halló, stór hluti af þeirri leið, og þar með bensínstöðin, leit út fyrir að hafa orðið fyrir kjarnorkuárás og var hreinlega ekki til staðar. Ég hata verðandi Tónlistarhús.

Þurfti að hjóla Hverfisgötuna, blindandi með sætið allt of hátt og hálfloftlaus dekk. Ekki sexí. Nú er að athuga hvort ég kemst aftur heim.

2 ummæli:

Svandís sagði...

Ert þú ekki um það bil að verða vibbalega fitt?

Sigga Lára sagði...

Hrrroðalega. Orðin algjörlega háð því að fara og lyfta þrisvar í viku. Hjólaði þangað áðan! Þetta er ekki að vera neins konar hemja.