7.5.07

Skilvirkni og hámarksárangur

Þá er maður bara kominn í vinnuna, með augnlokin á hælunum og eina þá mögnuðustu timburmenn sem elstu menn muna. Ég þakka öllum fyrir allar hamingjuóskirnar og símtölin og smessin sem hefur rignt yfir mig undanfarinn sólarhring. Þetta er alvarlega kúl. Nú hef ég skrifað tvö leikrit í fullri lengd, ein míns liðs, og þau hafa bæði verið valin AÁÁ. Tilviljun? Nú fer ég að gera meira af þessu. (Sagði konan sem er að fara í nám og allskyns.)

Margir hafa verið að velta fyrir sér hvenær sýningin í Þjóðleikhúsinu verði. Án nokkurrar ábyrgðar, og án þess að um það hafi verið tekin formleg ákvörðun, þá held ég að það sé stefnt á bilið 1. - 8. júní. (Fyrir BÍL-skóla)

Á öðrum vígstöðvum gekk helgin líka alveg syngjandi vel. Freigátan var hin hamingjusamasta með ömmuna og frænkuna á Egilsstöðum og lét ekkert á sig fá að foreldrin væru fjarverandi í tvo daga. Hún lék við hvern sinn fingur þegar ég kom og sótti hana, og var bara voða glöð að koma heim líka. Meðfærilegt barn. Það er sumsé hægt að hafa hana í útláni yfir nótt, allavega hjá ömmu-Freigátu. Aldrei að vita nema menn notfæri sér það, kannski til dæmis þegar lokahelgin á Skólanum verður.

Rannsóknarskip notaði þessa fríhelgi sína til að fá flensu. Hann var þess vegna bara með hor og slef og tómt búr þegar við komum heim, svo Móðurskipið mátti byrja á að sigla hraðbyri í búðina og afla fæðu.

Mér skilst að Smábátur hafi eytt helginni á trampólíninu, ásamt hálfu hverfinu. Mikið finnst mér nú gaman hvað tölvan og DVD-ið fá mikið frí hjá honum þessa dagana. Alveg óumbeðið.

Og í viðbót: Umsögn AÁÁ dómnefndar um málið má lesa hér.

9 ummæli:

Unknown sagði...

Vá! Til hamingju með það! Djö... ertu flott, stelpa!

Nafnlaus sagði...

já ég skelli aftur inn hamingjuóskum kellingin mín, þú ert mögnuð og ég vona svo sannarlega að þessar dagsetningar haldi því ég vil alls alls alls ekki missa af þessari sýningu!

Nafnlaus sagði...

Þetta er magnað...nú er bara að setja allt á fullt:)...já og til þeirra sem voru á Hallormsstað þegar þetta var tilkynnt...þá fékk ég allt í einu eitthvað sandkorn í augað um leið og Tinna tilkynnti þetta...ég var ekkert að gráta!!!

Berglind Rós sagði...

Vá, það er engin smá umsögn! Til lukku aftur. Já og hæ Þráinn :-)

Nafnlaus sagði...

Þráinn, reyndu ekki að ljúga þig út úr þessu, þú grenjaðir eins og garðkanna!

Ég, hins vegar... hérna... fékk bara allt í einu ofbirtu í augun... af því að... Tinna og Egill voru svo fræg!

Þráinn sagði...

Hæ Berglind:D

Þráinn sagði...

Heyrðu nú mig...ofbirta já...og afhverju var ég þá látinn halda á 3 kertum???

Nafnlaus sagði...

Risaflott hjá þér og þínum. Ég gratúlera

Nafnlaus sagði...

Vá Siggalára! Þetta er alveg magnað hjá þér - hjartanlega til lukku með árangurinn. Hlakka til að sjá snilldina í höfuðborginni :)