25.7.07

Ofurlítil duggan

(Með sínu lagi:)
Á fyrstu viku meðgöngu gaf storkhelvítið mér

Geðveika grindargliðnun

Var að huxa um að semja jólalag um fyrstu 12 vikur meðgöngu, en gafst upp á fimmtu.
En það má gjarnan verða safnverkefni.

Allavega, Ofurlítil Duggan er væntanleg í heiminn þann 9. febrúar, á afmælinu hennar Rannveigar. Ég reikna reyndar ekki með henni degi fyrr en hálfum mánuði seinna. Og látið ekki vinnuheitið blekkja ykkur. Kyn er óvitað og verður fram að fæðingu. Í þágu þess að hafa einhverja spennu í þessu. Smábátur er samt búinn að panta bróður. Freigátan lætur sér fátt um finnast, en þykir þó sándið í ístru móður sinnar eitthvað hafa breyst til hins betra og trommar á hana við hvert tækifæri.

Úff, hvað ég er fegin að þetta er opinbert. Þá getur maður farið að láta bumbuna lafa og hætt að finna upp lélegar afsakanir fyrir áfengisneysluleysi.

Meðgöngutikkerar eru uppáfinding sem ég var ekki búin að uppgötva þegar ég var síðast í svoleiðis. Er búin að finna þrjá sem mig langar í. Þá er bara að komast að því hvernig maður setur svoleiðis inn.

Á fimmtu viku meðgöngu gaf storkhelvítið mér

Hægðatregðu

Morgunógleði
Engan bjór
Ekkert að reykja

Og geðveika grindargliðnun

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til lukku með nýja bumbubúann!
Hjá ykkur er væntanlega ekki rætt um fjölskylduplön heldur kvótamál;)
Hafi ég einhver ítök legg ég svo á og mæli um að í slippnum muni öll verk og bygging ganga snuðrulaust fyrir sig og að þegar tíminn er kominn verði sjósettur einstakur kostaknörr.
Hulda

P.S. 8.2.2008 er það sem ég segi.

Gummi Erlings sagði...

Jiminn! Læti eru þetta. Er við hæfi að óska til hamingju með meðgönguna?

Varríus sagði...

Mazeltov!

Bara passa að missa sig ekki alveg og berja barnið í hausinn með kampavínsflösku við skírnina.

Blogger stingur upp á nafninu voclorp. Veit það ekki, svolítið eins og lágt sett illmenni í illa skrifaðri fantasíu.

Nafnlaus sagði...

Ó hvað þetta er gaman! Til lukku! Og megi grindargliðnun og ógleði undan láta...
María

Nafnlaus sagði...

Til Hamingju með dugguna!! Það er bara endalaus sköpun í gangi;-)
Kveðjur að austan, Eygló

Þórunn Gréta sagði...

Til hamingju, þetta fer að verða svo myndarlegur floti hjá þér, þarftu ekki að fara að tryggja þér kvóta?? Ehehh... Bið að heilsa öllum með hamingjuóskum, hlakka til að byrja að kenna smábáti á slaghörpuna í haust ;)

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega til hamingju :o)

Nafnlaus sagði...

jahérna - til hamingju flotaforingi, vona að vel heilsist á alla kanta
Mögulegar viðbætur við meðgöngutikkera - fúlan brjóstsviða, brjálaðan bakverk, bifandi barm, löngun í lakkrís, skapsveiflur,andvökunætur... og svo framvegis og svo framvegis.

Kv. Gilitrutt

Nafnlaus sagði...

Vá til hamingju! Svo að Freygátan verður bráðum stóra systir... Þið eruð aldeilis frjósöm! Bestustu kveðjur

Nafnlaus sagði...

þú ert nú bara að verða soddan nelson! hamingjan á alla lund og vonandi verða erindin ekki fleiri í jógleði-söngnum.

Nafnlaus sagði...

Váááá! Takk fyrir að búa til barnið með afmælisdaginn minn sem fyrirmynd;)
Þið eruð dásamleg.

Bestu kv.
Rannveig

fangor sagði...

til lukku! þú verður að fara að byggja hafnaraðstöðu undir þetta allt saman. nóg af fínum lóðum í mosó..

Ásta sagði...

Innilega til hamingju. Maður bregður sér í frí í fimm mínútur og þarmeð úr stanslausri bloggyfirsýn og þá koma auðvitað stórfréttir.