11.9.07

Eitt og annað


Þáer lox farið að glytta í ljúfa skólalífið sem ég var búin að skipuleggja mér fram að áramótum. Eftir frekar svefnlitla nótt vaknaði Freigátan fyrir allar aldir, ljónhress og næstum hitalaus. En nú er komið að taugaáfallinu sem verður sennilega viðvarandi suma þriðjudaga, þegar allur skólinn er á miðvikudögum. Einhvern veginn þarf ég að klára að lesa heilan haug og mynda mér skoðanir á því hvað ég vil halda fyrirlestra um, gera útvarpsþætti um og skrifa innganga að, hægri og vinstri, fyrir morgundaginn. Með frekar pirraða Freigátu með innilokunarkennd klifrandi upp á haus á mér. Það mætti nú segja mér að þetta verði einfaldara ef hún verður einhverntíma óveik og í leikskólanum á þriðjudegi. Og það hjálpar líka til þegar ég verð orðin alla jafna horlaus í hausnum og hætt að þurfa að ganga með lítið og veikt grey um gólf á nóttunni og mestallan daginn.
Það er svona að vera orðinn illu vanur. Nú er ég farin að sjá framtíðina í algjörlega rósrauðum bjarma.


Örlítið um Ofurlitlu Dugguna. Rannsóknarskip var eitthvað að klappa mér á bumbuna um daginn og ég sagði:
- Er þetta strákur eða stelpa? Segðu það sem þér dettur fyrst í hug!
- Stelpa.
- Og hvað heitir hún?
- Gyða.

Og svo er hann líka alveg viss um að nýja barnið fæðist 28. janúar, eins og Freigátan. Ég held kannski að Rannsóknarskip haldi að hún endurfæðist bara og verði mjög hissa þegar það kemur eitthvað alveg nýtt og öðruvísi barn. Sjálf er ég að vonast eftir örsnöggri og þægilegri fæðingu með barni sem sefur óstjórnlega mikið og er eins og móðir Rannsóknarskips segir hann hafa verið, getur bara setið og spekúlerað í höndunum á sér, tímunum saman. (En ég geri mér svo sem engar vonir um annað en annað síhoppandi prílidýr. Enda er Freigátan nú frekar fullkomin eins og hún er.)

Nýjar myndir eru alltaf á leiðinni. En ég finn ekki myndavélasnúruna. Sem er hálfgerður dragbítur. Frakklandsmyndirnar eru líka alltaf á leiðinni í vefalbúm. Hér eru sýnishorn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þið eruð krútt.