Við Freigáta löbbuðum á leikskólann í dag, í snjókomunni. Þegar ég kom heim var ég svo yfirkomin af hreyfingu að ég skráði mig í meðgöngujóga tvö kvöld í viku. Ég held ég hafi bara næsum aldrei verið svona svakalega... virk, eitthvað. Einhverntíma hefði manni þú þótt fullmikið að vera í 20 einingum í mastersnámi, svo maður tali nú ekki um óléttur með fullt hús af börnum. En það er nú bara að ganga ágætlega upp. Ég er alveg á áætlun í öllu og hef næstum aldrei þurft að læra utan leikskólatíma hjá Gyðu. Þó ég mæti alltaf í bumbusund þegar ég mögulega get. Það hefur svo sem oft verið fínna heima hjá mér... en það hefur líka oft verið draslaralegra og óhreinna af minna tilefni.
Ég held þessi velgengni í öllusaman hafi líka mikið með það að gera hvað ég er búin að ná góðum tökum á þunglyndinu núna. Þessi örfáu viðtöl sem ég fór í fyrir jól í fyrra hafa skilað meiri árangri heldur en öll þunglyndislyfin sem ég er búin að éta, samanlagt. Núna veit ég að þegar ég er að pirrast, sérstaklega þegar ég fæ "keðjupirr" (byrja að nöldra við sjálfa mig yfir einhverju, fer yfir í eitthvað annað, og svo jafnvel það þriðja) að það er ekki "það" sem er að pirra mig. Það er bara eitthvað annað. Stundum veit ég hvað það er. Stundum er það ekkert sérstakt. Stundum er ég bara í vondu skapi af engu sérstöku. Og ég má það.
Ég er nefnilega ágæt. Alls ekkert fullkomin, og þarf ekki að vera það og myndi aldrei nenna því. Ég held að stór hluti af mínu þunglyndi hafi verið Alheimsvinsældakeppnin. Ég hef oft orðið gjörsamlega miður mín ef mig grunar utan af mér að einhverjum mislíki hugsanlega eitthvað sem ég hef sagt eða gert í einhverju. Þó þetta "eitthvað" sé eitthvað sem kemur engum við nema sjálfri mér, þá hefur alveg komið fyrir að ég hafi ekki getað á mér heilli tekið útaf því hvað "einhverjum" finnist það nú kannski ekki nógu gott. Og þá skiptir engu máli þó 99% alheims hafi lýst yfir skilyrðislausum stuðningi við alla mína tilvist og að þessi einhver sé himinhrópandi bjáni. Neibb, Alfullkomnun og Alheimsvinsældir skulu það vera. Ellegar geðbólgur dauðans.
Djuls kjaftæði.
Ég er loksins búin að átta mig á því að meira að segja á slæmum degi geri ég það sem ég tek mér fyrir hendur bara drulluvel. Og það er nú bara bísna margt, og fer fjölgandi.
Mér finnst þetta hreðjatak sem ég hef á svarta hundinum svolítið vera eins og að standa upp. Eins og ég sé búin að vera liggjandi, af því að ég hélt ég væri lömuð, en núna er ég búin að fatta að ég er það ekki neitt.
Og get allt sem ég vil.
Sem er gaman.
En ég ætla samt ekki að reyna að gera allt, bara eins og kemst í tímann.
Og svo má ekki gleyma að gefa sér tíma til að dingla sér og leika sér við krakkana sína og svoleiðis.
Og blogga. ;-)
30.10.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Jahérna Siggalára! Ég játa að ég er húkkt á blogginu þínu og les daglega. Einhver áráttuhegðun sjálfsagt þar sem ég þekki þig ekkert að ráði... Þetta með alheimsvinsældirnar var ég alveg að skilja, akkurru er maður svona? Áfram með hreðjatakið!
Aðdáunarfyllst,
María
Skrifa ummæli