26.1.08

Allt öfugt

Í gær gerðist hið óumflýjanlega. Sundbolurinn minn gafst upp. Á rassinum. Hann var reyndar orðinn á þykkt við kóngulóarvef á köflum, enda búinn að endanst í bumbusund þrisvar í viku í tvær meðgöngur. Í dag var því ekki undan því komist að fara í sundfataferð í Kringluna.

Annars byrjaði ég þennan öfugsnúna sólarhring á að vera andvaka í mestalla nótt. Bara útaf engu. Freigátan vakti okkur síðan með magapínu og skítkasti fyrir allar aldir. En hún er búin að vera að hamast við að jafna sig í dag, enda verða menn að verða frískir þegar líður að tveggja ára afmæli. Sem var einnig annað erindi í Kringluna, finna afmælisgjöf handa dömunni. Móðurskipið hafði nú fyrirfram ákveðið að hafa afmælisgjöfina í hagnýtari kantinum, en missti sig að sjálfsögðu í bollastellin og púslin.

En ég skrópaði sem sagt í jóga og fór í staðinn og þrammaði um Kringluna eins og herforingi. Kom færandi varninginn heim eftir að hafa eytt formúgu. Keypti mér meira að segja kjól. (Á 2000 kall.) Bætti fyrir brot mín með því að taka voða mikið til í eldhúsinu þegar ég kom heim og þrífa baðherbergið niður að hnjám. (Get ekki beygt mig lengra.)

Allt kemur fyrir ekki. Ofurlítil Duggan haggast ekki fet.

Og eftir þessa viku tel ég maklegt og réttvíst að horfa á Spaugstofuna.

1 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Heyrðu mér varð svo mikið til hugsað til þín í gærkvöldi. Manstu þegar við vorum í ME og vorum að leita að krúttlegum, pínu angurværum high school movies til að horfa á. Ég sá í gærkvöldi alveg ekta svona mynd eins og við vorum að leita að, hún heitir Juno, http://imdb.com/title/tt0467406/
Mæli með henni :-)