25.1.08

Veðurógeð

Oj. Tjúllað veður og útlit fyrir annað tjúllviðri fyrir kvöldið. Ég ætla að þykjast vera hrrroðalega fín frú og taka leigubíl í bumbusund. Það er bara ófært fyrir mig að fara fótgangandi í strætó, nema í mesta lagi aðra leiðina.

Það var yndislegt að fara í nudd í gær og ég held ég sé eitthvað ögn hressari í dag. Svo rignir þýðingaverkefnum, sem ég ætti nú kannski að fara að huxa til þess að hafna einhverju af... ég er bara svo gráðug og held eitthvað að þetta barn komi alveg örugglega ekki fyrr en í fyrsta lagi í kringum ásettan dag. Sem eru nú alveg tvær vikur í.

Lenti annars í barnabúð í leiðinni úr nuddinu í gær og fjárfesti í forláta burðarsjali, sem er svona strangi sem maður vefur um sig allan á ákveðinn hátt og er síðan hægt að stinga krílinu inní á nokkra mismunandi vegu. Fékk valkvíða í litaúrvalinu, en hafði það svo grænt. Ætlaði að æfa mig að binda það á mig þegar ég kom heim, en komst að því að ég var of feit til þess.
Ömurlegt að eiga nýtt dót sem maður getur ekki leikið sér að.

Í dag er bóndadagurinn. Einhvern bóndadaginn verð ég að gera eitthvað merkilegt fyrir Rannsóknarskipið. Þetta er fjórði bóndadagurinn sem hann hefur verið minn einkabóndi og ég hef ekkert gert fyrir hann á neinum þeirra.
Í fyrra var heimilið undirlagt í flensu og ekkert gert.
Þaráður var ég miklu óléttari en núna. Örugglega meiraðsegja komin framyfir og alveg þrælfötluð. Ekkert gert.
Þar á undan bjó hann ennþá á Akureyri. Man ekki einu sinni hvort ég heimsótti hann.

Og núna lítur ekki út fyrir að ég geri neitt heldur.

Rannsóknarskip hefur hins vegar aldrei klikkað á konudeginum þó hann hafi stundum þurft að leggja mikið á sig til að koma gjöf eða blómum eða hamingjuóskum með daginn á framfæri.
Einhvern tíma býð ég honum til útlanda um bóndadaxhelgi til að vinna upp alla glötuðu bóndadagana.

Og mér finnst skerí að ég gæti þurft að vera ólétt fram yfir konudag!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaf litlu frænku svona burðarsjal í skírnargjöf, reyndar bjó það bara til sjálf þar sem það var c.a. 60% ódýrara. En þetta er ALGJÖR snild!