Fyrr um daginn fórum við Hraðbátur og aðstoðuðum Ástu við að gera Eyjarslóðina frumsýningarpartíhæfa. Svo ætlaði ég nú kannski að athuga eitthvað með partíið, eftir að hafa farið heim að gefa, en þá var nú Hraðbáturinn nú bara með vesen og vesalings Rannsóknarskipið að niðurlotum komið, þó það reyndi nú að bera sig vel. Svo ég fór ekki fet, heldur svæfði bara liðið. (Hefði eftiráaðhyggja alveg getað stungið af um tólfleytið. Hraðbáturinn var svo aðframkominn eftir kvöldið að hann svaf eins og grjót alla nóttina.)
Annars er ég búin að vera að hitta fólk núna, og fór að huxa um samskipti þess. (Sem öll leikrit eru um.)
Nú hljóma mín samskipti einhvern veginn svona:
Bla-bla-bla bakflæði bling-bling nefkirtlar ble-ble-blö.
Fyrir ca. 10 árum var það eitthvað:
Ble-ble próf blu-blu helvítis ritgerð bla-blíng
Fimm árum fyrr:
Blí-blí-blí fyllerí blæng-blæng fjörutíuþúsund bjórar ble-ble-bla
Datt þetta svona í hug þar sem þetta er að hluta til sama fólkið sem ég er að hafa samskipti við í öll þessi ár. En sama er hvort umræðuefnið er hver drakk 16 tekílaskot og gubbaði svo eða hvað ungabarnið gubbar mikið, þá er bara eitthvað svo alltaf jafn stórskemmtilegt við að eiga samskipti við fólk, þó það sé allt meira eða minna um gubb. Og sjálfsagt verður sama ánægjan í því, eftir 50 ár, að ræða gigtina, þvaglekann og veðrið. (Og gubb.)
Eitt hefur þó alltaf verið gegnumgangandi í öllum mínum samskiptum í öll þessi ár:
Bla-bla leikfélagið ble-ble-ble frumsýning blíng.
---
Og rétt í þessu voru að berast fréttir af því að Smábáturinn var að eignast litla (ja eða bara nokkuð stóra) systur hjá norðurfjölskyldunni sinni. 17 merkur og 53 cm var daman.
Óskum Möggu, Steindóri og Kamillu til hamingju með hana og vonum að öllum heilsist ljómandi. Þau voru búin að þurfa að bíða dáldið, komin viku framyfir.
Þar með á Smábáturinn 4 lítil systkini. Eins gott að hann er þessi ljómandi fyrirmynd.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli