Dóttir mín hefur mjög einfaldan tónlistarsmekk. Í tæpt ár hefur Ljóti Hálfvitadiskurinn verið það eina sem hefur staðið undir nafni sem "tónlist". En hana heimtar hún jafnan þegar hún er sett inn í bílinn. Míka fékk síðan líka að vera "tónlist" til mjög skamms tíma. Á heimleið úr páskaferðinni til Akureyrar skipti mín síðan um skoðun. Í miðju Bjór meiri bjór gall við úr aftursætinu: Tónlist! Móðurskipið fékk hland fyrir móðurhjartað og hélt að barnið væri nú endanlega orðið heyrnarlaust af eyrnabólgu og sagði:
-En það er tónlist.
Svarað var:
-NEI! TÓNLIST!
Í ljós kom að það eina sem hlotið hafði sess tónlistar var lagið "Afmæli" með Páli Vilhjálmssyni (Gísla Rúnari) en það er á barnadiski sem Hugga móða gaf henni. Í staðinn fyrir að fá þó allavega að hlusta á heilan disk í bílnum, þó aftur og aftur sé, má núna bara hlusta á eitt lag. Einstöku sinnum "Hann er tannlaus greyið" með Glámi og Skrámi.
En lagið á þó vel við í dag. Móðurskipið á afmæli. Er búin að fá dásamlega afmælisgjöf frá börnunum, fyrstu og einu seríuna af My So-Called Life á DVD formi. Ég gruna Rannsóknarskip um að hafa haft hönd í bagga. Hann gerir sér ljóslega ekki grein fyrir því hversu mikið ég mun Slefa þegar fundum okkar Jordans Catalano ber saman á ný. (Annars var ég að lesa í slúðurdálkunum að sú ágæta krúttbolla hafi um daginn bætt á sig 30 kílóum fyrir hlutverk og orðið svo feitur að hann gæti ekki labbað. Glansinn fór nú aðeins af...)
Og ég er algjörlega að stelast. Það er brjálað að gera. Allt vaðandi í þýðingaverkefnum, heimilisstörfum og öðru og þá er ég ekki einu sini farin að huxa fyrir kynningunni á ritgerðinni minni sem ég á að flytja í tíma á fimmtudaginn kemur.
En Hraðbáturinn er þó allavega orðinn reglulega friðsamur. Í gær fór hann í fyrsta sinn í vagninn á svölunum án þess að ég klæddi hann of mikið, og svaf í 3 tíma samfleytt. Þar er hann núna og er búinn að vera í 2 tíma. Ef svo heldur áfram sem horfir ætlar hann að sofa þarna langdvölum tvisvar á dag og lofa Móðurskipinu að vinna brjálað á meðan. Í staðinn get ég algjörlega leikið við hann þegar hann er vakandi, en það finnst okkur báðum einmitt svo gaman.
4.4.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
Til hamingju með daginn
Til hamingju med daginn!
sjaumst fljotlega,
Nonni & Kathleen
Til hamingju með daginn :)
kveðja
Hildur
Til hamingju með afmælið :)
Gleðilega afmælisdag og njóttu þess að horfa á Catalano! *slef*
Til hamingju með 25+ afmælið!
Kveðja Lilja
Hún á afmæli í dag
hún á afmæli í dag
hún á afmæli hún Sigga Lára...
hún á afmæli dag :)
Til hamingju með daginn, vonandi líkaði þér söngurinn :)
Kveðjur og knús og ykkur öll :)
Til hamingju með ammælið, Siggalára.
Afmælisgjöfin í ár verður sigur á erkifjendunum í Liverpool á morgun!
Til hamingju með afmælið í gær :) Ég vildi nú óska að mín væri jafn dugleg að sofa, hún er nýverið búin að bíta það í sig að sofa ekkert á daginn, bara dotta öðru hvoru í 5 - 10 mínútur og gráta oft mikið þess á milli. Þarf greinilega að redda mér vagni út á svalirnar og sjá hvort hún sofi nú eitthvað þar.
Kveðja Ásta Kristín :)
Skrifa ummæli