Af gífurlegri þjófhræðslu hafa Akureyringar, allir sem einn, harðlæst internetunum sínum. Þessvegna verður þessi páskapistill allur eftirá og í belg og biðu, skrifaður af Móðurskipinu, rangeygu af þreytu, að kvöldi páska/skírnardax.
Reynum samt að byrja einhversstaðar nálægt því sem frá var horfið.
Á skírdag var bévað skítaveður.Rannsóknarskip var þar að auki með hálsbólgu svo allir höfðu einstaklega hægt um sig, Freigátunni til lítillar gleði.
Á föstudaginn langa barst oss síðan liðsauki að austan, en þá bættust afinn og amman þaðan í hóp umsinnenda.
Laugardagurinn var síðan gífurlega annasamur en þá hafði tekist að skipuleggja ótrúlega mikið af genginu í leikhúsferðir. Freyvengir gjörðu oss þann greiða að hafa þann dag tvær sýningar á sýningu sinni, Þið munið hann Jörund. Frá okkar bæjardyrum fór það þannig fram að fyrst fór ég með foreldrum mínum, en Rannsóknarskip fór með börnin þrjú í sveitina á meðan. Eftir sýningu brunuðum við síðan þangað og tókum með okkur þau tvö litlu, en Rannsóknarskip og Smábátur fóru á seinni sýninguna með ömmu í sveitinni meðferðis.
Mikið afskaplega var nú gaman. Auðvitað litast álit mitt á þessari sýningu af því að ég hef ekki í leikhús komið í talsvert margar vikur, en það er langur tími. Þrátt fyrir talsverðar taugadrullur og geðbólgur í aðdragandanum, yfir því að þurfa að skilja ungabarnið eftir mjólkurlaust í tvooghálfan tíma var hreint dásamlegt að fara með mömmu og pabba í leikhús. Sitja afturí og vera í mesta lagi unglingur.
Þetta leikrit er reyndar hreinræktaður hroði, en sýningin var ljómandi góð og líklega þessu handriti bjargað eins vel og því var viðbjargandi. En voðalega hefði nú þurft að stytta þetta rækilega mikið og meira. Eitt er þó snjallt í því. Eins og hinn almenni Íslendingur er "teiknaður" er hlutverk allra aukaleikara í þessu verki að standa álkulega og utangátta og stara tómlega og áhugalaust á aðalleikarana eða út í bláinn. Svosem eins og maður sér þá alloft gera þó þeir eigi alls ekki að gera það. En tekið skal fram að Freyvengir leystu þessi hlutverk mun betur en þeir sem gjarnan gera þetta óvart.
En, semsagt, hreint ljómandi sýning.
Daginn eftir, á páskadag, kom síðan að því að Hraðbáturinn skyldi vatni ausinn og gefið nafn í leiðinni. Charlie Brown leysti það snaggaralega af hendi. Hraðbáturinn heitir núna, semsagt:
Friðrik
Það er enginn hissa, allir segja bara: Ég vissi það, Og svoleiðis.
Já, við erum frekar hefðbundin. Freigátan heitir eftir ömmu sinni í móðurætt, Hraðbáturinn eftir afa sínum í föðurætt. Enda fæddist drengurinn ári eftir dánardægur afa síns, næstum uppá dag, og er þar að auki einkar Friðríkur og Friðrikslega útlítandi. Og verður sennilega öllum Friðrekum til sóma, bæði til orðs og æðis, þegar fram líða stundir.
Eftir nafngjöfina tók við verkefnið að láta heyrast í prestinum (sem var nokkuð raddlaus eftir leiksigrana tvo daginn áður) fyrir tveimur yngstu fjölskyldumeðlimunum. Það gekk ágætlega lengi vel. Einhvern tíma fór reyndar hinn nýskírði Friðrekur að ókyrrast. Ég bað himnaföðurinn alllrabestu afsökunar áður en ég vippaði út hægra brjóstinu í musteri hans og nærði drenginn. Enda fylltist hann við það heilögum anda og þagði og svaf lengi vel. Eftir predikun fannst mér á þoli barnanna og því sem eftir væri líklega af messunni, að þetta yrði nú sennilega einn leiksigurinn enn, þar sem tvö yngri börnin mín gætu látist vera þæg og hljóðlát í heilan klukkutíma. En þar varð mér á... í messunni.
Messan tók allt í einu undarlega beygju til vinstri og ég blótaði næstum. Auðvitað var altarisganga í páskamessunni. Ormarnir náðu báðir að halda einsöngstónleika. Messan varð einni altarisgöngu of löng.
Að láta skíra börnin sín er annars ýmsum vandkvæðum bundið.
- Þetta er gjarnan í fyrsta sinn sem nýbornar mæður þurfa að troða sér í nælonsokkabuxur eftir burð. Í þetta sinn hafði ég þó vit á því að hafa þær einum fjórum númerum stærri en í meðalári.
- Maður þarf að klæða sig í eitthvað sem er ekki of glyrðulegt til að mæta í til kirkju, en er þó nógu flegið til að maður geti afklætt á sér brjóstin, helst með lítilli fyrirhöfn.
- Maður þarf að mála sig að morgni dax. Það hef ég einu sinni gert áður, þegar ég skírði hitt barnið, og kann ekkert á förðun sem virkar í daxbirtu.
Ég hefndi mín þó á alheiminum með því að hafa athöfnina sjálfa að morgni og veisluna ekki fyrr en seinnipartinn, og pína þannig alla stórfjölskylduna í allar áttir til að vera í sparifötunum ALLAN DAGINN. Sem er nú rúmlega það ljótasta sem hægt er að gera fólki.
Það afrek var unnið í veislunni að öllum barnabörnum ömmunnar í sveitinn var hrúgað í einn sófa, ásamt henni sjálfri, og myndir teknar á allar viðstaddar vélar. Var það mikið afrek og gott.
Núna erum við óðum að hamast við að ganga frá eftir okkur og éta leifarnar, sem eru talsverðar. Á morgun ökum við svo á nokkra staði með skírnartertuafganga, ekki síst í sveitina þar sem ku hafa fæðst í dag þrír lambakóngar. Ég spurði hvort þeir hétu Kasper, Jesper og Jónatan, en fékk þau svör að þeir heiti Friðrik I II og III.
Í dag er bara eitt nafn í ættinni.
24.3.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
7 ummæli:
Til hamingju með nafnið - hann er svo sannarlega Friðrikslegur - fríður, ríkur og alles! Kveðjur frá okkur í Ártúnsholtinu :)
Æðislegir páskar greinilega! Til hamingju með Friðrikinn.
Lilja
Til hamingju með Friðrik hinn aðal.
Til hamingju með nafnið, mjög svo konunglegt og hæfir dreng sem er svo fríður sýnum :)
kveðja
Hildur
Frikki Ádna.
Það er nebblega það. Mér datt það nú aldrei í hug en það er samt alveg gersamlega að gera sig. Ég prófaði nokkrar útgáfur;
-Fréttir les Friðrik Árnason
-Séra Friðrik Árnason þjónar fyrir Öll hreindýr austurlands voru við þjóðveginn. Þetta gerði sér lítið fyrir og hoppaði yfir girðingu. altari.
-Háttvirtur þriðji þingmaður norðurlandskjördæmis, Friðrik Árnason, tekur nú til máls.
-Þýðandi og þulur, Friðrik Árnason.
Jú, þetta er glæsilegt.
What!
Þetta er merkilegt. Bloggin okkar hafa slímast saman.
Skrifa ummæli