11.4.08

Dekr

Æ, hvað mar er nú vel giftur alltaf.
Rannsóknarskipið kom snemma heim og tók hvítvoðunginn með sér að sækja leikskólabarnið og var jafnvel að spá í að fara síðan með þau í heimsókn. Ég er þess vegna ein heima (!) búin að fara í langt og ilmandi bað og hafa heilmikinn tíma í heimildavinnu. Sem felst í því að safna saman allri umfjöllun sem ég finn um leikfélagið Hugleik, á þessu stigi málsins. Ég er að reyna að hemja mig og safna öllu bara saman núna, en ekki lesa það allt. En tvær stórar og feitar opnugreinar gat ég ekki stillt mig um að skoða staf fyrir staf. Nefnilega greinarnar um ferðir Sálna Jónanna á leiklistarhátíð í Harstað og flakkið í framhaldinu.

Ég fór næstum að grenja. Hroðalega var gaman. Að huxa sér að einu sinni hafði maður aldrei farið á leiklistarhátíð! Svo er ég að fara að hitta Bingófólkið á sunnudaginn. En ég ætla einmitt að smygla mér með þeim á hátíð í Lettlandi í ágúst.

Það sem örlögin ofdekra mann.

En þegar þessi færsla er kláruð er þrenningin komin heim. Freigátan búin að detta í stiganum og fá myndarlega kúlu á ennið og Hraðbáturinn búinn að gubba á hreinu fötin mín.

Ojæja. Þetta var nú samt einkar góður klukkutími.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þá datt mér aldrei í hug að Hugleikur yrði hluti af fortíð minni. Kannski hitti ég hann aftur í framtíðinni - kannski... Hrafnhildur

Sigga Lára sagði...

Mér datt heldur aldrei í hug að ég yrði svona konan sem kemur og vinnur í miðasölunni og nöldrar yfir að hún þekki svo fáa í leikskránni.

En, voilla, það er að gerast annað árið í röð!