6.4.08

Forgangur?

Hvílík forkunnargeðveiki sem er að gera, allt í einu. Móðurskipið gengur fyrir kaffi og spýtist um, útúrstressað og þorir ekki að láta eitt einasta sekúndubrot fara til spillis. Þessi færsla gerir það ekki heldur, hún á að vera fræðileg rannsóknarúttekt á því hvort ekki megi fleygja fyrir róða einhverju verkefni.

Þýðingar:
Svosem kannski það leiðinlegasta. En gengi Bandaríkjadalsins hefur ekki verið annað eins um aldaraði, svo ég tími ekki í frí frá því akkúrat núna.

Ritgerð:
Tæknilega séð þarf ég ekki einu sinni að klára einingarnar fimm sem lánasjóðurinn vill að ég klári á önninni, (fæ ívilnun vegna barneignar og 75% lán þó ég klári ekki fleiri) þar sem ég á 5 aukaeiningar frá því fyrir áramót. En á þeim er ég að nískast þar sem ég geri rannsóknarverkefni í haust (sem ég geri reyndar í sumar) og get þess vegna fengið 75% lán í haust fyrir að gera mest lítið. Sem ég þarfnast þar sem ég tek fæðingarorlofið í sumar og Hraðbáturinn verður orðinn miklu fyrirhafnarmeiri í haust þegar hann verður farinn að skríða og velta. Svo, nei, ekki get ég sleppt ritgerðinni.

Leikrit:
Það er ekki til í mínum karakter að segja nei þegar ég er beðin um að skrifa leikrit og jafnvel hótað fjárgjöf fyrir. Reyndar er það á hóld í augnablikinu, leikstjóri á eftir að tímasetja fund þar sem hann ætlar að segja mér hvað er að því. (Er hálfpartinn að vona að hann segi mér að troða því upp í félaxheimilið á mér. Það væri þá einu verkefninu sjálfhætt.)

Börnin:
Vil ég síðan síst alls vanrækja. Þau verða víst ekki eilíflega hjá manni. Eins og maður hrökk svakalega upp við um daginn þegar það elsta fór allt í einu í mútur. Enda finnst mér mjög stutt síðan ég var sjálf barn en nú hafa samt foreldrar mínir verið einir í kotinu í bráðum áratug. Svo það er vissara að leika við krakkana sína, og mikið af því, áður en þau hætta endanlega að hafa tíma til þess.

Heimilið:
Er það sem þarf stundum að vera afgangs, en það er hreint ekki gott þegar maður er eiginlega í of fáum fermetrum og hvert smádrasl verður til þess að nálinni hættir að vera niður stingandi og ófært verður í sum herbergi. En gagnger endurskipulagning verður víst að bíða betri tíma.

En í augnablikinu er Smábáturinn enn fyrir norðan og litlu ormarnir sofandi, svo það er best að hella í sig meira kaffi og halda áfram að ramba á barmi albrjálæðis með geðofsaglampa í augum.

Engin ummæli: