Ég er einmitt búin að vera að huxa svolítið um ósonlagið sem enginn minnist á lengur. Kannski er það bara rigningarhaustið og hríðaveturinn en mér finnst sólin alveg ógurlega öskrandi björt og gul þessa dagana. Er eiginlega orðin alveg dauðleið á henni þegar hún loxins fer úr íbúðinni minni á kvöldin.
Er búin að komast að því að það er ekki endilega brjálaður kostur að hafa stofuna alla í suður og suðvestur.
Annars hef ég ekkert svakalegar áhyggjur af hlýnun jarðar. Er eiginlega alveg viss um að við komum til með að hafa tíma til að flýja til fjalla. Nema þetta endi eins og í Waterworld. Sem væri nú afleitt. Afspyrnu leiðinleg mynd.
Einn svaka góður punktur kom í lokin á þessum Jarðarþætti. Jörðinni stafar ekki hætta af mannkyninu. Við getum gert okkar versta, Jörðin jafnar sig á nokkrum ármilljónum. Mannkynið á hins vegar á hættu að útrýma sjálfu sér og hinum spendýrunum. En það kemur örugglega eitthvað annað í staðinn. (Strýtuþörungar?)
Og mér skilst að ósonlagið sé allt að jafna sig. Sennilega var það bara hárspreysúðun túberinganna og eitísins sem fór svona með það. Kannski lagast líka gróðurhúsaáhrifin þegar allir verða komnir á rafbíla. Verst að svo getur komið eldgos og rústað öllusaman.
Morguninn var annars afkastamikill. Fórum í heimsókn með börnin þrjú og kenndum fólki með eitt svoleiðis að meta kyrrðina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli