28.4.08

Kaffi

Hraðbátnum fannst EKKI gaman í jóga. Hann hrein hástöfum ef Móðurskipið ætlaði eitthvað að leggja honum, svona fyrripart tímans. Hann gaf leyfi fyrir nokkrar æfingar undir lokin, með hálfgerðri skeifu þó. Þetta þótti honum apalegt sport og var skíthræddur við hávaðann í öllum þessum börnum og mömmum. Enda er hann búinn að sofa milli mála síðan, svo þetta hefur greinilega verið erfiður morgunn.

Annars er Móðurskipið í einhverju viðgerða/aðgerða/gera það sem hefur lengi staðið til, kasti. Fyrir nokkrum dögum fóru nokkrar filmur í framköllun. Já, filmur. Sem enginn heimilismaður hafði lengur hugmynd um hvað var á. Ég sótti myndirnar áðan. Yngstu myndirnar eru tveggja ára gamlar. Hinar eru frá árunum 2004-2005, giska ég á. Ein filma var frá því að ég var á námskeiði á Írlandi sumar 2004, og myndirnar sem tilheyrðu Rannsóknarskipi giska ég á að hafi verið teknar á svipuðum tíma, svona miðað við það sem mér sýnist vera aldurinn á Smábátnum á myndunum. Reyndar segja dagsetningarnar á þessum myndum að þær séu teknar árið 1994... en það passar nú bara ekki, þar sem áðurnefndur Smábátur er fæddur 1996 og er augljóslega nokkuð löngu fæddur á þessum myndum.

Einnig skilaði ég til viðgerðar PC-lappanum mínum sem er löngu orðinn leiðinlegur. Ég formattaði harða diskinn í honum síðasta vor, en það gerði ekki mikið gagn eða lengi. Svo þurfti ég nottla að nota tækið í fangavist Makka-Míka síðasta sumar og haugaðist loxins í gær til að afrita það sem í græjunni var í gærkvöldi. Og tróð síðan græjunni í bleyjutöskuna og setti hana í viðgerð í leiðinni úr jóganu. Ekki búið að standa til nema í rúmt ár...

Svo er þurrkarinn eitthvað búinn að vera að stríða mér og áðan tók ég hann loxins í gagngera skoðun. Fann þá einhverja rist svona "undir" sem greinilega var ætlast til að maður þrifi. (Ekki þetta venjulega þar sem maður tekur lóna eða vatnið, heldur þriðja staðinn.) Þar var allt svo pakkfullt af ógeði að ég efast um að það hafi heldur verið fattað af fyrri eigendum. Enda hljómar þurrkarinn allur hamingjusamari núna.

Sem og Smábátur og félagar sem eru búnir að hoppa og skoppa úti í garði í meira og minna allan dag. Ég efast um að verði einu sinni kveikt á pleisteisjoninu næstu daga. Og það er nú algjörlega drellifínt.

Að auki er búið að skipuleggja innkaup einnar ljómandi mublu og er ég búin að sjá að uppsetning hennar þarf að gerast helgina eftir hvítasunnu. Það er einfaldlega eina helgin sem eftir er fram að útlegð þar sem Smábátur verður heima eftir að ég er búin að skila af mér verkefnum vorsins. Þá á í leiðinni að skipta á herbergjum, Smábátur flytur í tölvu/gestaherbergið, en tölvan flytur í hans herbergi. Einhvern tíma í ófyrirsjáanlegri framtíð er síðan áætlað að við gömlu flytjum okkur í tölvuherbergið og skiljum litlu ormana eftir með allt dótið sitt í stóra herberginu. Ef við verðum þá ekki allt í einu orðin rík og búin að stækka við okkur. Sem er frekar ólíklegt að gerist svona alveg næstu árin, meðan innkoman samanstendur mest af kennaralaunum og/eða námslánum og/eða fæðingarorlofum. Ekki ríða menn nú sérlega spikuðum bykkjum fá því.

Og mikið ógurlega er mikið bjartara í stofunni minni þegar sjónvarpið og allskonar húsgögn standa ekki lengur fyrir aðalglugganum. Bezt að fá sér kaffi.


Engin ummæli: