27.4.08

Allt gott

Ég er orðin óþunglynd að staðaldri, en eftir svona daga er maður nú hreint og beint... léttlyndur.

Heyrði í Ömmu-Freigátunni í morgun og við virðumst eiginlega alveg vera búin að fá íbúð á leigu mestan partinn af sumarleyfinu. Í mjög nánu nágrenni við ömmuna og afann sem þurfa einmitt svo mikið að passa meðan ég ritstýri og Rannsóknarskip golfar. Góðar fréttir. En fyrir eystan verðum við frá ca. 5. júní til 10. ágúst. Ferðast um Austurlandið og firðina fram og aftur og austa eins og vindurinn. Og nú skal sko haldið ríjúljon, þið norðanfólk!

Rannsóknarskip og Freigáta fóru í húsdýragarðinn fyrir hádegi. Hraðbáturinn svaf mestallan tímann og Móðurskipið gat aðeins hellt sér í leikritið. Sem voru svona... eins góðar fréttir. Og breytingarnar sem ég þarf að gera eru ekkert svakalega lengi gerðar.

Við endurheimtum Smábátinn um fjögurleytið og öll fjölskyldan fór í heilbrigða fjölskyldugönguferð um gamla vesturbæinn, Smábátur hjólandi, Freigáta kerrandi og Hraðbátur í bumbupoka.

Þegar heim kom var búið að setja trampólínið upp úti í garði. Smábáti og félögum til gífurlegrar gleði. Fréttin var enga stund að ferðast um hverfið og um kvöldmatarleytið var búið að prófa græjuna vel og vandlega.

Sumarið er sem sagt opinberlega komið á þessu heimili. Hvað sem frost- og slydduspár næstu daga segja.

Og í fyrramálið byrjum við Friðrik í mömmujóga.

1 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Lýst ógurlega vel á rejúlíon :) er komin í sumarfrí 18.júlí og er þá til í allt :)