Og það er fyrsti maí. Þar sem ég er alin upp á gífurlegu Verkalýðsfélax- og kommúnistaheimili, þá var 1. maí mikill hátíðisdagur í mínum uppvexti. Hann fór yfirleitt þannig fram að elllldsnemma var ég ásamt öðrum kommabörnum, send út af örkinni og látin byrja að pranga fyrsta-maí-merkjum inn á meira og minna þunna og nývaknaða bæjarbúa. Sumir keyptu alltaf, þó þeir væru varla vaknaðir með öðru auganu. Aðrir sögðu ævinlega "nei" og skelltu hurðinni á nefin á kommabörnunum. Með tímanum lærði maður að sleppa heimilum atvinnurekanda og harðra sjálfstæðismanna. Þetta var nú á einfaldari tímum þegar heimurinn var svarthvítur, floxlínur skýrar og allir annaðhvort með eða á móti.
Í eftirmiðdaginn var síðan frítt í bíó.
Svo eina hefð erum við að hálfhalda í. Smábáturinn fór í bíó með félaga sínum. Rannsóknarskip fór í leiðinni með Freigátuna í sína fyrstu bíóferð. Hún fær að sjá Bubba byggi í villta vestrinu. Spennandi verður nú að vita hvernig það gengur. Hún var mjög spennt fyrir að fara í bíó án þess að vita almennilega um hvað málið snerist. Ég hef einmitt verið að velta fyrir mér hvort hún verði orðin hafandi á frumsýningum barnaleikrita þann 14. júní næstkomandi.
Annars fór ég að spekúlera í orðræðu samtímans. Og fór að pæla í hvað hefði orðið um allt fólkið. Hvert fór verkalýðurinn? Og alþýðufólkið? Mér finnst eiginlega ekki einu sinni vera kjarabarátta í dag. Þó allir séu að segja upp og mótmæla, og jafnvel komi fyrir að menn fari í verkföll. Verkalýðsfélög eru öll farin að heita eitthvað annað. "Starfsgreinasambönd", eða eitthvað. Ég sem hélt ég væri alin upp á "alþýðuheimili" frétti fyrir nokkrum árum að ég væri frá "menningarheimili". Sem mér finnst vera allt annað. Enda gat ég ekki verið frá "alþýðuheimili" þó ég væri frá "Alþýðubandalaxheimili" þar sem foreldrar mínir voru hreint ekki verkamenn, heldur algjörir skrifstofurassar af ættum sæmilega stæðra bænda í báðar föðurættir. (Og reyndar kotbændaættum inn á milli, en það er samt líka allt annað en alþýðan.)
Um árið var eitthvað verið að fjalla um hversu mörg börn væru að alast upp með heimilistekjur undir fátækramörkum á Íslandi í dag. Þetta þóttu mér hræðilegar tölur. Þangað til ég sá hvaða tekjur væri verið að miða við og sá að við vorum að ala okkar börn upp alveg talsvert undir fátækramörkum. Og finnst mér við bara hafa það skítfínt. Núna í "kreppunni" held ég hins vegar að við séum að verða ríkasta fólk í landinu. Við vorum svo heppin að kaupa ekki alveg eins dýrt húsnæði og við réðum við á sínum tíma og heimilið aðeins búin að hækka eitthvað í tekjum síðan. Og um daginn gat ég lagt haug inn á verðtryggðan sparireikning. Og þar er sko fínt að eiga péning núna í verðbólgunni. Samt erum við enn undir fátækramörkum.
Það er líklega okkar mesta heppni að vera bæði alin upp af hundgamaldax foreldrum sem kenndu okkur að reyna fyrst og fremst að skulda sem minnst og að margt væri eftirsóknarverðara í lífinu en dýrt dót. Ef reikningarnir um mánaðamót éta ekki upp nema smá af kaupinu manns er nefnilega ekkert mál að lifa ljómandi vel af tekjum undir fátækramörkum. Meira að segja í kreppunni.
Þetta var nú frekar ömurlegur verkalýðsdaxpistill.
Er sennilega á hraðri leið að verða bæði sjálfstæðismaður og atvinnurekandi.
2 ummæli:
Nehhei, fyrirtaksverkalýðsdagspistill. Mér hlýnaði og sit ég þó í steikjandi kvöldsólinni. Ég held að fleiri mættu hafa þau lífsgildi í huga að hafa má gaman af öðru dóti en dýru. Svona eins og fleira er matur en feitt két.
BerglindSteins
Maður er nú orðin svo illa haldin af menntasnobbi að ég gef skít í þennan sívælandi verkalýð ;) he he...og hef það bara fínt á öllum mínum námslánum :)
Er líka búin að komast að því, að fólk sem vælir mest yfir peningaleysi er fólkið sem á mesta peningana...en mikill vill meira!
Skrifa ummæli