30.6.08

Kaffi

Nú þarf ég eitthvað að endurskipuleggja. Er með toppgræju sem mamma á í "nýja húsinu" þar sem við búum. En það er alveg hroðalegt að vera búinn að drekka ilmandi bolla af cappuchino heima og koma svo í vinnukjallarann og komast að því að hér er ekkert til nema eitthvað ævafornt nes. Þetta er bara með því verra sem ég hef smakkað. Og ekki bara kaffi.

Svo endurskipulagningar er þörf.

Er annars að koma Rannsóknarskipi inn í húsföðurstörfin, hægt og bítandi. Í morgun fór fram kennslustund í ungbarnagraut og í kjölfarið átti að vera pelaæfing en þá sagði Hraðbáturinn hingað og ekki lengra. Hann fékk þess vegna bara venjulegt og ég þorði ekki að heiman fyrr en hann var sofnaður og feðginin komin í gott stuð inni í dótaherbergi.

Annars er Rannsóknarskip nú óttalega druslulegur ennþá. Bryður verkjalyf og er gulur í framan. Það tekur sem sagt lengri tíma að jafna sig eftir hálskirtlatökur heldur en barnsfæðingar... allavega sumar. Ég var allavega alveg steinhætt að taka verkjalyf eða vera gul 10 dögum eftir að hraðbáturinn fæddist. (Var reyndar sífellt eitthvað að klúðra mjólkinni af því að ég gleymdi að hvíla mig.)

Jæja. Mér er víst ekki til hangs á bloggum boðið. Eins og þau eru nú freistandi. 8 síðna grein um Papey bíður lestrar og svo þarf ég að hringja í hundrað manns. Sssstuð.

Engin ummæli: