1.7.08

Og það rignir og rignir og rignir...

Sjaldan er ein báran stök. (Nema Bára syss, sem er nottla einstök.) Þegar Rannsóknarskip byrjaði að skríða saman eftir hálsskurðinn fékk hann í bakið og er því enn í lamasessi. Mikið djöfull svakalega er ég orðin þreytt á þessu endalausa "ástandi" sem virðist alltaf vera á einhverjum í fjölskyldunni. Og ég er hætt að ímynda mér að linni. Nú er bara að sjá hvað tekur við þegar húsbóndinn rís upp af bakbeðnum. Grrrr.

Allavega, nú eru dagar umskiptanna. Bára fór í gær, barnapían fer á eftir, en í kvöld koma Hugga syss og Smábáturinn. (Ný systir og nýr barnapír.) Svo það koma menn í manna stað. Svo á ég von á Siffa bróður fljótlega með sína frú og hennar fjölskylda kemur líka bráðum og verður í sumarbústað á Einarsstöðum. Svo veðrið bara verður að fara að skána eitthvað, annars fær Siglufjörður leiðinlega mynd af Héraðinu. (Ekkert ranga, en leiðinlega.)

Annars er að komast á vanagangur hér. Ég reyni að vinna á morgnana og kem til með að gera meira af því ef húsbóndinn hættir einhverntíma í örkumlinu. Og hann verður nú að gera það áður en kemur golfveður. Eitthvað erum við líka búin að þvælast um Austurlandið og reynum að gera meira af því á meðan Smábáturinn stoppar. En það verður víst eitthvað skemur en til stóð þar sem drengurinn ætlar að skella sér á reiðnámskeið í Eyjafirðinum uppúr 7. þessa mánaðar. Sem hljómar svo spennandi að við tímum alveg að sjá af honum í það. Svo skreppum við kannske eitthvað norðurum í kringum miðjan mánuðinn.

Já, það er víst kominn júlí! Mánuðurinn sem virðist alltaf vera styttri en aðrir mánuðir og veldur mér undantekningalaust veðurfarslegum vonbrigðum! Og í honum ætla ég að ritstýra einu tölublaði af áður margnefndum Glettingi. 
Sosum ágætt að vera bara oní kjallara á meðan slyddan hamast úti...

Og bezt að minna sjálfa mig á að tjá mig um Pál Ólafsson á morgun.

Engin ummæli: