12.11.08

Geðbil

Hunzkaðist lox til læknis í gær. Verð verri á geðinu með hverri vikunni. Helvítis góðærið. Ég kenni manneklu á leikskólum um að eyðileggja fínu fyrirbyggjandi aðgerðirnar sem ég var búin að skipuleggja í haust. Lifi kreppan. Þá er bara reyna að koma sér aftur í lag.

Núna þarf ég helst að vera búin að öllum verkum og verkefnum áður en ég byrja á þeim. Og gera þau fullkomlega. Annars er ég algjörlega misheppnuð sem einstaklingur. Sem ég er hvort sem er vegna þess að allt sem ég geri, seint og illa, er glatað. En þetta er auðvitað kolvitlaus raunveruleikaskynjun. Ég er að standa mig hreint ágætlega í öllu sem ég er að gera, svona í alvörunni. Enda hef ég, undir venjulegum kringumstæðum, gaman af því langflestu. Því fúlla að vera ekki að njóta þess almennilega. 

Læknirinn ætlar að redda mér viðtölum einhversstaðar. Reyndar örugglega brjálað að gera hjá sálfræðingum við að tala við fólk með Kreppu. Sá sem hittir á mig verður heppinn að fá tilbreytinguna að tala við einhvern sem er enn með Góðæri. Læknirinn sagði líka að ég væri duglegur þunglyndissjúklingur. Vel meðvituð um sjúkdóminn sem skipti miklu máli upp á líðan og bata.

Það er reyndar frekar fyndið en það er einmitt eitt af sjúkdómseinkennum mínum. Ég lext nefnilega ekki í rúmið í mínu þunglyndi. Allavega ekki lengur. Þvert á móti fæ ég endalausa þörf fyrir að leysa allt algjörlega fullkomlega í lífinu. Og ef ég þarf að vera þunglyndissjúklingur þá þarf ég líka að vera Hinn Fullkomni Sjúklingur. Full af meðvitund og baráttuanda. Alltaf að hreyfa mig og vera úti. Fresta aldrei neinu og held öllu í jafnvel fullkomnara lagi en venjulega. Breytir ekki því að allt þarf að vera eins og ég ákveð, annars Ferst Heimurinn!

Og djöfull er maður nú leiðinlegur þegar maður lætur svona. Vona að læknirinn finni fljótt fyrir mig fræðing. Þá get ég farið að athuga hvort stýrð hugarleikfimi dugar í þetta skipti eða hvort ég þarf kannski pillur.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svona er þetta. Ein með Góðæri meðan allir aðrir eru með Kreppu. Sem minnir mig hins vegar á að í langan langan tíma hef ég ekki gefið mér nægan tíma til að horfa á alvöru afþreyingu í sjónvarpi. Þá meina ég afþreyingu sem mörgum finnst lítilmótleg, hallærileg og allt það. Ég hef til að mynda ekki horft lengi á Dr. Phil sem fær mig undantekningarlaust til að finnast ég mjög fullkomin. Og það er að byrja 14 serían af Bráðavaktinni í sjónvarpinu og ég held bara að ég hafi misst af svo sem eins og síðustu 10? Svo er nýlega byrjuð bresk sería á fimmtudagskvöldum í ríkisimbanum um konur sem sofa hjá þvers og kruss, rosalega heitar allar saman en lifa mjög flæktu lífi. Hvað varð um þau gömlu góðu ár þegar ég horfði á sjónvarp - snökt snökt. Bið annars að heilsa fræðingunum.
Hrafnhildur

Sigga Lára sagði...

Já, það verður nú skemmtilegt í atvinnuleysinu þegar maður getur farið að horfa á sjónvarpið, stöðina einu sem verður eftir, brjóta saman þvottinn sinn í hverri viku, skrifa eitthvað og bara tjilla.

Rannsóknarskip er kominn með Kreppu. Í Góðærinu var hann með tjúllað háan blóðþrýsting. Nú hefur orðið gengisfall og blóðþrýsingurinn hans er 110 yfir 70. Ég vona að kreppan verði mér til geðheilbrigðis.

Sigurvin sagði...

Kannski er gott að hugsa bara: "Heimurinn er að farast hvað sem maður gerir. Þannig að kannski er málið bara að njóta þess sem er eftir af honum."
Allavega hugmynd :)

Sigga Lára sagði...

Ja, hann er allavega ekki að fara að farast neitt hraðar þó ég megi ekki vera að því að taka til að alveg uppá milljón. Þarf bara að fá sjálfa mig til að skilja það...

Nafnlaus sagði...

Í gær á 12 degi veikinda á mínu heimili komu foreldrar mínir í sjúkravitjun og hleyptu mér í vinnuna. Þegar ég kom heim beið mín getraun - mamma hafði sem sagt farið um heimilið með tusku, skrúbb eða kúst og ég átti að geta hvað hún var búin að gera!!!
Ég get svarið fyrir það að ef sjúklingurinn hefði ekki upplýst mig þá hefði ég aldrei tekið eftir því að hún þvoði alla glugga og gardínurnar í stofunni voru glansandi hreinar eftir eina ferð í þvottavélina. Þetta er eitt af því sem mér dettur aldrei í hug að gera - OG ÞÁ MEINA ÉG ALDREI. Svona er að hafa ekki farið í húsmæðraskóla :o(
Hrafnhildur