11.11.08

Stórasta? Litlasta?

Unglingurinn minn er ánægður með að eldast. Með hverju árinu slaknar aðeins á reglunum. Um daginn fóru hann og vinir hans aaaaaleinir á frumsýningu á James Bond mynd. (Reyndar bara á hálfsex sýningu með ströngum fyrirmælum um að koma beint heim á eftir, en samt mikið sport.)
Já, hann er orðinn heilmikið stór og er hamingjusamur og upp með sér yfir því. Oftast.

Um daginn var reyndar matur sem honum líkaði ekki. Honum var nú tjáð að fullorðið fólk þyrfti alltaf að borða það sem væri í matinn. Heyrðist þá hljóð úr horni með dramatískum tilþrifum: "Já, en ég er BARN!" Það þótti nú óknittinu henni fósturmóður hans einkar fyndið.

Svona finnst mér líka Íslenskir ráðamenn tala svolítið núna. Áður en hún Dorritt fann upp langefstastigið og kallaði Ísland stórasta land í heimi voru menn búnir að haga sér einmitt þannig. Allir tilbúnir í að kenna Dönum að versla og Bretum að banka. Þeir sem töluðu um hringamyndun og ofvöxt voru nú bara plebbar. Og litlir fyrir stórasta land í heimi.

En núna, þegar búið að er að skíta á sig og leita þarf ásjár annarra landa erum við allt í einu lítið land. Smáþjóð. Lítilmagnaður litli bróðir og stóru þjóðirnar (sem við reyndar rændum) eru fantar og hrekkjusvín að vilja ekki lána okkur ennþá meiri peninga alveg án þess að við ætlum neitt að reyna að borga þeim aftur það sem við skuldum.

Í fréttunum í gær sagði forsætisráðherra, með tárin í augunum, að hann tryði því ekki að Bretar og Hollendingar ætluðu að fara svona með "litla þjóð."

Ég get ekki að því gert. Í hvert skipti sem menn byrja á litluþjóðarvælinu skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur og hrunið í heild sinni vera gott á okkur eftir stórasta hrokakast í heimi.

1 ummæli:

Ásta sagði...

Fokking amen