13.11.08

Útivist og þvergirðingsbjánar

Ekkert heyrist nú frá geðbólgufræðingum. Sennilega er maður mjög heppinn ef maður kemst að fyrir jól í þessu árferði. Holl hreyfing og útivist er hins vegar að gera sitt gagn í baráttunni. Og einmitt best að hafa bara nógu andskoti mikið af henni. Þrátt fyrir nepju og norðangarra. Í fyrradag ferðuðumst við Hraðbátur barnavagnandi alla leið upp á Bandalagið. Í gær fórum við í búð út á granda og svo fór ég með Freigátuna á langþráð sundnámskeið í fyrsta sinn eftir veikindi.
Í dag ætlum við Hraðbátur að leggja land undir barnavagnshjól og ganga alla leið á Hrafnistu í Reykjavík þar sem ungbarnasund skal stundað, í fyrsta sinn eftir eyrnabólgu.

Já, það er víst mikilvægast að taka sér tíma í að fara út og hreyfa sig. Það verður þá bara að hafa það þótt inniverkefnin bíði á meðan. Annars er ég komin á bls. 34 í próförkinni af hinum illræmda Glettingi (af 52) og búin að sinna því sem þurfti algjörrar endurhönnunar við. Aukinheldur búin að rífa stólpakjaft við formann félagsins og höfund burðargreinanna í blaðinu mínu þar sem þeir eru eina fólkið sem hefur verið iðið við að vera til hreinna og helberra vandræða í samstarfi. Er að öðru leyti fyrirmunað að vera sammála hvor öðrum. Auðvitað hefði ég átt að vera búin að skamma þá og skella hurðum fyrir löngu. Það er nú bara einhvern veginn þannig að gamlir kallar þurfa að ganga skratti langt til að ég hætti að bera virðingu fyrir þeim. En á síðustu metrunum er ég búin að missa þolinmæðina og segja báðum tveimur nokkuð til syndanna. Urðu þeir nokkuð klumsa og hvumsa og bera stórum meiri virðingu fyrir mér eftir og ég huxa að þeir eigi meiraðsegja eftir að brúka mannasiðina, bara. 
Spes hvernig svona gamlir austfirskir þvergirðingsbjánar virka. Ég er greinilega komin úr þjálfun að fást við þá. Líklega búin að vera of lengi í siðmenningunni.

Og þó...

Hugsunarhátturinn: "Ég hef rétt fyrir mér þó alheimurinn sé á öðru máli" virðist vera óskaplega mikið í gangi hjá íslenskum stjórnvöldum þessa dagana. Alheimurinn og þjóðin er ósammála, en stjórnvöld hins gjaldþrota Íslands þykjast samt hafa rétt fyrir sér um alla hluti og segja sig bara frá dómstólum sem voga sér að halda öðru fram. Ekki vissi ég að Geir H. Haarde og félagar ættu svona þvergirðingsbjánaskap til. Ætli þeir séu ættaðir að austan?

Svo bíður mín líka hið bráðskemmtilega verkefni að lesa Maríu Stúart eftir Schiller fyrir morgundaginn. Úff. Hef grun um að allar kúkableyjur dagsins verði meira spennandi...

Engin ummæli: