21.1.09

Að berja fólk til að verja... hús?

Reyndar er ég nokkuð viss um að byltingin vinnist heldur með hávaða en brotnum rúðum. En ekki þykja mér merkileg rök fyrir ofbeldi gegn almennum borgurum sem hljóða uppá að það þurfi að "verja Alþingishúsið". Enginn reyndi að ráðast til inngöngu. Enginn sótti fram gegn neinu nema dauðum hlutum. Er ekki komið örlítið ójafnvægi á hlutina þegar má meiða fólk til að varna því að það meiði... hús?

Óhreinkun á þessu ágæta húsi er táknræn aðgerð um það sem fólki sýnist þegar hafa gerst. Og þó allar rúður í Alþingishúsinu fari í mél, þykjast þeir sem þar sitja inni hafa efni á að hnýta í aðra fyrir að eyða almannafé?

Svo mæli ég með því að menn hafi með sér slökkvitæki. Ekki til að slökkva neina byltingarelda, heldur vegna þess að sé slegið í slökkvitæki glymur óskaplega fallega í þeim. Ekki ólíkt kirkjuklukkum.

En svo eru það þeir sem vilja vita fyrirfram hvað menn vilja fá út úr kosningum... (Sem er annars undarleg krafa, meira að segja í meðalári.)
- Ef ekkert annað, kjörna fulltrúa sem endurspeglar vilja landsmanna.
- Það hefur væntanlega í för með sér að trú erlendra ríkja á íslenskum stjórnvöldum eflist aftur og gerir hægara um vik að stunda milliríkjaviðskipti og fá erlend lán á sæmilegum kjörum. (Til að geta borgað upp í snarhasti fasistalánið sem sitjandi ríkisstjórn tók með skilyrðum sem við höfum enn ekki fengið að vita.)

En við verðum að fá dagsetningu á kosningar sem fyrst. Til þess að fólk geti farið að skipa sér í fylkingar og vinna viðamestu hugmyndavinnu sem farið hefur fram í sögu lýðveldisins. Og sitjandi ríkisstjórn hefur sýnt af sér þvílíkt vanhæfi að það má ekki gefa henni vinnufrið til að klúðra málum frekar.

ÁFRAM MEÐ BYLTINGUNA!

Engin ummæli: