22.1.09

Verkefnum?

Ríkisstjórnin vill starfa áfram fram á vor. Allavega kærustuparið sem stendur fyrir henni. Þau vilja fá að "starfa að verkefnum." Það væri nú svona fjórtán sinnum trúverðugra ef menn væru til í að segja frá því hver þessi "verkefni" eru. Bara einfalt: "Við þurfum að gera þetta og þetta og þetta." Sú staðreynd að útskýringar á því í hverju þessi "verkefni" felast segja mér að þetta sé eitthvað sem aðrir geta gert og betur. Hugsanlega eru þetta einhver skilyrði frá IMF, sem sauðsvartur almúginn má, bæðevei, ekki vita hver eru.

Eitt og annað segir mér að þau viti ekkert hvað þau eru, eða eiga að gera.
Til dæmis:
- Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.
- Frysting lána rennur út um næstu mánaðamót.
- Blaður um úrræði fyrir heimili - ekkert gerist samt fyrr en eftir að menn eru farnir á hausinn.
- Blaður um viðbrögð við atvinnuleysi - ekkert gerist nema niðurskurður leiðir til uppsagna hjá hinu opinbera.
- IMF lánið. Ég vil vita hvað hangir á spýtunni. Nákvæmlega. Ég vil fá að lesa samninginn og líka smáa letrið og láta þýða fyrir mig það ósagða.
- Nú vil ég fara að láta leita að sökudólgum. Rannsaka bankamisferlin fyrir alvöru og sækja menn til saka. Dómsmálaráðunleytið á að gera það og ætti að vera búið að því. Í staðinn hafa pappírstætararnir fengið að ganga í 100 daga. Allir sem voru yfir eftirlitsstofnunum á meðan glæpirnir voru framdir eru að sjálfsögðu bullandi vanhæfir. Og ríkisstjórnin er búin að sýna og sanna að hún er vanhæf til að gera nokkuð í því.

Það er risastóra vandamálið.

Svo vill formaður annars flokksins ganga til kosninga í vor en ekki hins. Bendir ekki til þess að mikið sé eftir af þessu samstarfi.

Annars finnst mér gott að það virðist vera almennur skilningur á því að skrílslæti örfárra einstaklinga í nótt áttu ekkert skylt við mótmælin. Ekki aktívista, ekki anarkista, engan sem er að reyna að tjá skoðun sína á ástandinu í þjóðfélaginu. Næst þegar ég fer niðreftir ætla ég í gamla snjósleðagallanum mínum. Það gerist ekki appelsínugulara en það. Og snjallt að fresta mótmælum á föstudags- og laugardagskvöld. Enda mikilvægast að hafa hátt á fundatíma Alþingis, hér eftir.

Þessi ríkisstjórn má umfram allt ekki hafa vinnufrið fyrr en búið er að slíta stjórnarsamstarfinu og dagsetja kosningar. Og ekkert kjaftæði um að "kjósa á árinu" eða "kannski í haust" er að fara að friða neinn.

DAGSETNINGU Á KOSNINGAR Í VOR!!!

2 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Heyrðu þetta var góður punktur, ég mundi ekki eftir því að ég ætti neitt appelsínugult. Nú getur maður heldur betur farið að mæta! :-D

Sigga Lára sagði...

"Appelsínugulara gerist það varla."
Nema ef vera skyldi snjósleðagallinn hennar Berglindar. ;-)