7.1.09

Kassi


Raxt á merkilegan skókassa uppi í jólaskáp. Í honum var, meðal annars:

- Stúdentaskírteini frá 1993 með ótrúlega ljótri mynd af mér. (Henti.)
- Kveikjari. Hefði komið sér vel að eiga um jólin. (Varðveiti til næstu jóla.)
- Þrjár ferkantaðar tölur sem ég hef einhverntíma keypt með töskusaum í huga. (Varðveiti er ske kynni að ég kláraði einhvern tíma aðra tösku.)
- Lítill platti og skeið og gaffall úr Færeyjaferð 1986. (Varðveiti í pjattskápnum)
- Gyðingaharpa guðmávita hvaðan. (Sami staður.)
- Sígarettuhylki úr silfri sem afi minn átti og amma mín gaf mér eftir hans dag. Sem ég gat aldrei notað þar sem það passar bara fyrir filterslausar sígarettur. (Varðveiti þrátt fyrir að líkur á því að ég fari að reykja filterslaust héðan af séu hverfandi.)
- Bréf frá Heiðu skrifað árið 2002 með öppdeiti um hjúskaparstöðu og bralli ýmissa á þeim tíma. (Fleygði og var að hugsa um að brenna þar sem allar upplýsingar voru hræðilega úreltar og engum til góðs að kæmust í hámæli í framtíðinni.)
- Vasareiknirinn sem ég átti í menntaskóla og uppúr sem varð m.a. til þess að efnafræðikennarinn minn á Akureyri tjáði mér að ég væri ekki eins vitlaus og ég liti út fyrir að vera þar sem þessi ágæti reiknir birti allar útkomutölur sinnum 10 í einhverju veldi. (Strauk mjúklega og ákvað að hann væri ekki ónýtur.)
- Átekin filma. (Varðveiti þangað til ég á leið í framköllun, með skelfingarblandinni forvitni. Huxanlega sönnunargögn um eitthvað sem þarf að brenna um leið og innihaldið kemur í ljós... ellegar birta á Fésbók.)

Hvað þessir munir hafa átt svo sameiginlegt að mér hefur þótt hæfa að geyma þá svo rækilega saman í skókassa í jólaskápnum kem ég aldrei til með að vita. En ég held að ég hafi fengið skó í þessum kassa þegar ég var um 12 ára aldurinn. Tæmdi hann og henti honum þar sem það er greinilegt merki um alvarlega geðveilu að varðveita skókassa í meira en 2/3 hluta ævi sinnar.

Nema hann innihaldi bréfasamskipti eður servíettusafn, auðvitað.

Engin ummæli: