10.1.09

Rand


Það er helst að frétta að Hraðbáturinn er ekki með eyrnabólgu!
Hann var búinn að vera órólegur á nóttunni og við þorðum ekki annað en að láta athuga það eftir hremmingarnar um jólin. Hins vegar sá læknirinn glitta í jaxla þegar hann var að skoða í hálsinn. Það er svo langt síðan hann tók sínar átta fyrstu tennur að ég var hreinlega búin að gleyma að von væri á fleiri tönnum.

Eftir þessar gleðifréttir fórum við í Kringluna og spreðuðum í ýmislegt misgagnlegt. Til dæmis varð ég ástfangin af peysu og verslaði hana þrátt fyrir þá staðreynd að hún væri ekki til í stærðum á milli 8 og 18. Ég verslaði nr. 18 og get þrengt hana þegar vaxtarlagi ársins 1999 verður náð. Svo sem fyrirhugað er á þessu ári.

Ég mátaði ekki og þegar ég fór í hana eftir heimkomu flugu mér í hug orðaskipti úr hinum stórgóðu þáttum "Buffy the Vampire Slayer." (Lauslega þýtt)

Vampíra 1: Lít ég út fyrir að vera feit í þessari peysu?
Vampíra 2: Nei. Þú lítur út fyrir að vera feit af því að þú ert feit. Í þessari peysu ertu fjólublá.

Ég er nákvæmlega jafnfeit án og í nýju flíkinni minni. 
En í henni er ég þó allavega röndótt í öllum regnbogans litum.

Engin ummæli: