8.1.09

Mótmælum Allir

Blogg Doktorsins er mesta snilld. Hvort sem menn hafa áhuga á þjóðfélagsmálum, tónlist eða hvurutveggja. Í fyrradag var ég óvenjusammála honum:

"Fyrst var landið undirlagt í röfli um peninga. Hvað allir væru að græða rosalega mikið. Trilljón skrilljón á fyrsta ársfjórðungi. Verg þjóðarframleiðslu amma mín er pulsa. Dow Jones. Grægði er góð. Halelúja. Eftir hrunið er enn verið að röfla um peninga, bara á hinum endanum, og eiginlega er peningaröflið enn meira yfirþyrmandi en áður. Við skuldum trilljón skrilljón eða sjö ömmur með dýfu á mann í þrjár kynslóðir, ó ó ó æ æ æ. Dow Jones. Grægði er góð, en samt bara í hófi. Halelúja. Ég segi: Troðið þessum peningum í mínus eða plús upp í rassgatið á ykkur."

Ójá. Það eina sem vantar er ný ríkisstjórn sem skilur þá einföldu staðreynd að það mun aldrei renna ljúflega niður að kreista peningana sem nú vantar út úr heilbrigðis- og menntakerfinu.
Bara kosningar, ríkisstjórn með Steingrími J (VG), Ómari Ragnarssyni/Andra Snæ (Íslandshreyfingin) og Jóhönnu Sigurðar (Þjóðvaka, hennar tími er kominn) í forsvari.

Svo mega menn bara milljarða á mér rassgatið.

Skemmtilegt hvað ráðamenn eru kurteisislega klumsa yfir "ofbeldinu" í mótmælunum. En við skulum nú sjá hvað gerist þegar menn fara að missa vinnuna, húsin sín og hafa ekki efni á að fara með börnin sín á bráðamóttöku. Þá fyrst held ég að Geir og Ingibjörg Haarde fari að hafa ástæðu til klums.

Enda, mótmælendur og þeir sem sækja borgarafundi eru víst ekki þjóðin. Skoðanakannanir eru ekki kosningar. Allir sem skrifa greinar, halda ræður, stofna byltingargrúppur eru afturhaldskommatittir. Skríll.

Og hr. Hor finnst greinilega allt í lagi að Palestínumenn séu brytjaðir niður. Allavega engin ástæða til að setja sig sérstaklega upp á móti því. (Ástandið á Gaza get ég ekki tjáð mig um nema kannski einhverja nóttina. Hræði alla á heimilinu ef ég grenja of mikið.)

Allavega:

OPINN BORGARAFUNDUR #7

Í Iðnó, fimmtudaginn 8. janúar kl 20-22.

Fundarefni: Mótmæli (ólík viðhorf, ólíkar aðferðir, sömu markmið?), aðferðafræði mótmæla og borgaraleg óhlýðni.
Frummælendur
• Hörður Torfason – Raddir fólksins
• Eva Hauksdóttir – Aðgerðasinni
• NN anarkisti
• Stefán Eiríksson – Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins
Auk þeirra munu Katrín Oddsdóttir, laganemi og talsmaður Neyðarstjórnar Kvenna, Sigurlaug Ragnarsdóttir fyrir hönd Nýrra tíma og Þórhallur Heimisson, prestur, taka þátt í pallborðsumræðum ásamt fleirum og svara spurningum viðstaddra.
Þá hefur Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra sérstaklega verið boðin þátttaka í pallborðsumræðunum.
Hvetjum ríkisstjórn Íslands og alla alþingismenn til að mæta á svæðið, hlusta á sína kjósendur og vera með í umræðunni. Hvetjum ennfremur alla fjölmiðlamenn og konur til að mæta og taka þátt.
Fyrirkomulag
Fundarform verður með sama sniði og áður, þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og fundargestir úr sal fá að tjá sig eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga. Hver aðili hefur tvær mínútur til að tjá sig svo gott er að vera vel undirbúinn.

Við hvetjum fundargesti til þess að mæta tímanlega vegna takmarkaðs húsrýmis.
Sýnum borgaralega virkni og fjölmennum á fundinn. Spyrjum, hlustum og fræðumst.



Engin ummæli: