Ekki skal ég reyna að mæla bót vitleysisganginum í að skella sér á syng-kvínandi fyllerí, (eitt af þessum ca. fjórum á árinu), akkúrat þegar geðheilsan hefur náð botni og lyfjameðferð er rétt nýhafin. Sennilega hef ég nú bara oft gert margt gáfulegra. Er enda nánast í fósturstellingu í dag með ofsakvíða fyrir lífinu og fýlustrenginn við þanþolsmörk. Hefði maður ef til vill átt að halda sig heima og drullast í jóga kl. 10 í morgun? Að öllum líkindum.
Góðu fréttirnar eru þær að meðferðir eru að hefjast, allt horfir til betri vegar fljótlega og ég veit það alveg og man.
Og gaman var í gær. Afskaplega. Takk fyrir síðast, allir. Kannski sérstaklega sjaldséði hvíti hrafninn hún Habbý.
Eníveis. Í tilefni allra þessara geðbólgna er rétt að tína til slatta af jákvæðum, góðum og dásamlegum fréttum sem ekki hafa komist að fyrir pólitísku hnussi og reiðilestrum. Rannsóknarskip og Ólafi eru búnir að vera gjörsamlega á trilljón á baðherberginu alla vikuna að hamast við að skipta um allt íðí. Nánast. Eftir að rúmum 200 þúsund kalli var spreðað á hjól hagkerfisins hefur hagræðing orðið á baðherberginu þannig að nú úir þar og grúir af geymsluplássi í hvívetna auk þess sem gólfpláss er alveg nóg til að jafnvel megi taka nokkur dansspor við að troða í þvottavél og þurrkara.
Svona í leiðinni voru verslaðar hillur á heilan vegg í barnaherbergis-skrifstofunni. Ágætasta mubla úr Ikea sem ég hef haft ágirnd á síðan hún kostaði um þriðjungi minna. Og nú hefur kommóðum verið staflað hverri uppá aðra í svefnherberginu hjá okkur. Ég held við hljótum að fara að setja einhvers konar met í plássnýtingu. Fimm manna fjölskylda með píanó í 80 fermetrum? Og er bara nokkuð rúmt og kósí.
En nú þarf að safna meiru í klósettsjóðinn áður en farið verður í frekari framkvæmdir. Og mér finnst afar ólíklegt að við nennum meiru á þessu ári.
Svo gengur bara ferlega vel í "vinnunni" og svona. (Held ég... nema þegar ég fæ ógurleg kvíðaköst og finnst ég gera allt ööööömurlega... en ég vona nú að það sé bara geðveikin.) Vitleysan í gær byrjaði reyndar með því að tekið var á móti bókmenntafræðinemum í vísindaferð. Soldið spes að vera hinumegin á því.
Já, svo spær maður auðvitað bara í doktorsnám í kreppunni. Var svo lánsöm að hitta einmitt svoleiðis fólk í gærkvöldi, doktorsnema í bókmenntafræði semsagt, einmitt svolítið búin að velta þessu fyrir mér og fékk mörg ráð og góð um hvernig maður ber sig að í slíku og hvílíku. Í dag var ég síðan eitthvað að leggja mig og fékk hugmynd að efni. Ræddi það við Rannsóknarskip og hann fann enn skemmtilegri vinkil og þetta er einmitt rannsóknarefni sem maklegt og réttvíst er að rannsaka núna akkúrat á næstu árum. Svo það getur vel verið að ég sæki um. (Reyndar eftirspurnin örugglega svakaleg fyrir haustið, en kannski sakar ekki að gá.)
Mikið svakalega langar mig í eitthvað subbulega þynnkulegt að borða, akkúrat núna!
14.2.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Takk fyrir kveðjuna sæta. Mikið óskaplega var þetta nú gaman. Ég náði að halda öllum heilsum góðum og þakka ég það ekki síst þeirri ákvörðun minni að ganga "snemma" heim. Klikkaði hins vegar mögulega á því að bjóða þér í göngutúr með mér, það hefði kannski bjargað smá flís af þinni heilsu.
Gaman að fá að vera oggolítil grúppía eitt kvöld og ekki síður að fá vinsamlega ábendingu um að tala við manninn í stuttbuxunum ef mig langaði að næra hóruna í mér, svo sem eins og nokkrar kvöldstundir. Tek grúppíuna örugglega aftur seinna en sleppi hórunni í bili.
Góðar kveðjur - Habbs
Ég á bara til eitt orð:
Búkolla
Vó! Má ég koma í heimsókn og skoða skipulagið?? Við erum í mesta lagi fjögur í heimili, ekki nema 50% ársins þó, í tæplega 100 fermetrum með tvö píanó og ég er farin að kvarta yfir plássleysi!
Skrifa ummæli