Jæja, þá er ég búin að finna internetið. Í fínu litlu stofunni þar sem ég og hinir tveir nemendurnir ætla að skrifa hjá honum Togga.
Þegar ég yfirgaf flotann í um hádegið í gær hafði verið gert nokkuð hlé á gubbunni og í dag heyrist mér allt stefna í rétta átt, Hraðbátur reyndar slappur en ógubbandi en er víst enn með heilmiklu afturdrifi og Freigátan borðar stanslaust. Og enn sem komið er virðist ég ekki hafa tekið neina gubbu með mér.
Þegar ég lenti hér í gær vissi ég svo sem ekkert. Var alveg viðbúin því að finna mér bara svefpokapláss einhversstaðar og finna svo Meginfélagsskrifstofuna í morgun. En á rútubílastöðinni sveif hin Færeyska Bandalax-Vilborg (sem heitir Meginfélax-Malan) á mig, keyrði mig hingað í Fólkaháskúlann hvar ég hef verið síðan í yfirlæti hinu besta. Hún harðneitar að leyfa mér að borga nokkurn skapaðan hlut fyrir námskeið/fæði/húsnæði á þessu námskeiði. Ég er jú komin "alla þessa leið". Jahérnahér.
Enda lét ég ekki mitt eftir liggja við að styrkja færeyskt efnahagskerfi í dag. Þrusaði í færeysku Kringluna og verslaði handa börnunum þar til kortið sagði stopp. (Sem minnir mig á... þarf líklega að kíkja í netbankann.)
Ég er líka búin að sofa í 12 tíma í striklotu, éta allt sem ég finn og fara í kaffi á Meginfélagið. Svo koma hinir íslensku vitleysarnir í kvöld og þá verður nú líklega friðurinn úti. Svo nú er víst best að leggja sig vel og vandlega.
Já, og ef menn öfunda mig hræðilega mikið þá get ég svo sem bætt því við að það er haugarigning.
19.5.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli