19.10.09

Gerðar Fender

Þegar maður spókar sig sveittur í hlaupagallanum um háskólalóðina uppsker maður stundum nokkur ill augnaráð einstaklinga með samviskubit í líkamsræktinni. En það var fyndið að snúa aftur úr hlaupum í dag, í hlaupagallanum með umbúðalausan gítar á bakinu. Og storma beinustu leið inn í íþróttahús.

Í gítartímum er ég að læra fleira en gítarleik. Til dæmis er ég að komast inn í málheim strömmara. Það eru svona kallar yfir fimmtugt sem strömma af innlifun í öllum útilegum (býst ég við) kunna "Minning um mann" og "Stál og hníf" afturábak og áfram og finnst reglulega mikil framúrstefna að læra Sálarlög og "Ó, Gunna."
Þeir ræða gjarnan ágæti hljóðfæranna sinna fyrir tíma. Fara þá mikinn í umræðu um "standard og gæði" og nota orð eins og "græjur" og "verkfæri". Ég tek lítinn þátt, en ku eiga að fá mér "almennilega græju" þar sem gamli nælonstrengjagítarinn hennar Báru er víst "vonlaust verkfæri." Eins og áður sagði fékk ég líka aðeins að kenna á honum í síðasta tíma, ekki af því að hann skorti hljómfegurð (eins og strömmgengið vill meina) heldur er hann heldur hálsbreiður fyrir vora fíngerðu fingur.

Gaman verður að sjá í andlitin á liðinu þegar ég mæti í næsta tíma með græjuna hann Gerðar, sem er af tegundinni Fender (sem allir vita að er kúlst í heimi) og þar að auki svartur eins og erfðasyndin.

Engin ummæli: