5.2.10

Það búa tvær þjóðir í þessu landi

Auðvaldsklíkan og Blanki meirihlutinn.

Auðvaldsklíkan hefur enn töglin og hagldirnar í öllum peningamálum landsins. Hluti Blanka meirihlutans er með Stokkhólms-heilkenni og heldur að enginn geti stjórnað peningamálunum nema þeir sem hafa alltaf gert það, þó svo að árangurinn af því sé... ja svona eins og sjá má.

Að greina þarna á milli er ekki flókið. Í Auðvaldsklíkunni eru þeir sem hafa sambönd og fá "sérstaka fyrirgreiðslu" allsstaðar sem þeir koma. Í henni eru ekki allir sem keyptu Range Rover eða flatskjá. Í henni eru ekki þeir sem eru að fara á hausinn. Þar eru hins vegar þeir sem hafa einhverra hluta vegna fengið svigrúm til að vera ekki persónulega ábyrgir fyrir skuldunum sem þeir stofnuðu til, fengið að velta eignunum sínum á milli eignarhaldsfélaga og skilið eftir sig slóð af skuldum handa ríkinu, (blanka meirihlutanum) til að borga. Þegar fólk og fyrirtæki úr Blanka meirihlutanum á ekki fyrir skuldunum er hann umsvifalaust gerður gjaldþrota. Þegar fólk og fyrirtæki út Auðvaldsklíkunni eiga ekki fyrir skuldunum eru skuldirnar felldar niður eða þvegnar af öllu saman. Viðkomandi hafa gert þjóðina gjaldþrota en verða það aldrei sjálfir. Sama hvað.

Það mikilvægasta er að Auðvaldsklíkan stjórnar umræðunni. Hún tengist milli flokka. Þvert yfir landamæri hægri og vinstri og pólitíkur og fjármálaheims. Og hún ruglar markvisst umræðuna. Nú er búið að æsa upp í mönnum þrætur um hægri vs vinstri, kommúnisma vs kapítal, umhverfismá, Evrópusambandið... allt sem mönnum dettur í hug til þess að hið óhugsanlega gerist örugglega ekki, að blanki meirihlutinn sjái í gegnum djókið, geri áhlaup á bankana sem hamast við að afskrifa, hendi Auðvaldshringnum út í prófkjörunum, sýni almenna neysluleti og vinni saman, markvisst að því að koma öllum eigum þjóðarinnar út úr Auðvaldsklíkunni.

En því þarf að byrja á.

Menn eru að byrja að vakna. Farið er að heyrast af lögsóknum. Erfitt mál þar sem Auðvaldsklíkan á dómstólana. Já, og í mörgum tilfellum lögin (eða lögleysurnar) sem í gildi eru um hverjir mega stela og klúðra. En þetta er að byrja að koma. Menn fylgjast með. Rífast á Eyjunni. Það er byrjunin. Auðvitað eru menn aðeins úr þjálfun í málefnalegheitum, en fólk fylgist með. Það er ekki mikið svigrúm til að svindla eða pretta. Ekki mikið. Samt dáldið. Og enn virðist vera hægt að slá ryki í augu manna með því að setja fyrirtæki á almennan hlutabréfamarkað undir því yfirskyni að "hver sem er" geti keypt hluti. (Vandamálið er bara að "hver sem er" á enga peninga. Auðvaldsklíkan á það ekki heldur, en hún er með allavega tvo banka í vasanum, sem eru að afskrifa skuldir hennar, eins hratt og hægt er án þess að "allt verði vitlaust" og hefur enn sína menn í flestum valdastöðum þjóðfélagsins.)

Þetta er ekki flókið.

Allir vita hverjir eru í Auðvaldsklíkunni. Við þekkjum öll einhverja sem eru haldnir Stokkhólms-heilkenni og þora ekki að breyta. (Heilmikið af sjómannastéttinni, til dæmis, getur ekki hugsað sér að aðrir aðræni þá heldur en þeir sem það hafa alltaf gert.)

Enn og aftur.
Það þarf að gera byltingu.
Það þarf að ná völdunum af Auðvaldsklíkunni.
Þegar því er lokið er nógur tími til að rífast um allt hitt.

Engin ummæli: