12.4.11

Að prenta út 150 heimapróf er góð skemmtun.

Svo ekki sé nú minnst á roknafjörið við að fara yfir þau!

Þannig að best er að bulla dáldið vitleysu. Rannsóknarskip var endurheimtur í gær eftir lengri fjarvistir en ætlað var, vegna veðurs. Áðan labbaði ég yfir í Aðalbyggingu í rigningu. Svo til baka yfir í Háskólatorg í hagléli. Þaðan aftur yfir í Aðalbyggingu í sólskini. Og til baka hingað í Gimlið í skýjuðu og vindi. Þetta tók allt í allt svona 15 mínútur.

Í dag ætla ég að æfa örleik. Hanga svo í vinnunni og taka við og fara yfir heimapróf til miðnættis. Á morgun ætla ég með krakkaormana í páskaklippinguna, eftir leikskóla. Fara með þau í Stubbalubba og eyða formúgu í skallana á þeim.

Á fimmtudag eru síðustu sýningar á Hárlakki í Hagaskóla! (Aukinheldur ætla ég að hlaupa 7 kílómetra í Háskólahlaupinu og gá hvað ég næ mörgum veðrum á leiðinni.)

Geymslan á Ránargötunni hefur enn ekki tæmst. Planið er að Rannsóknarskip gangi í málið á mánudaginn, þegar hann verður kominn í páskafrí á undan öllum öðrum. Vera má að eitthvað verði tekið til óspilltra mála um helgina. Planið er allavega að skila öllu draslinu, tómu, hreinu og alfarið fyrir páska.

Páskunum verður því eytt óskiptum úti á landi. Þ.e.a.s. í Kópavoginum.

Og ég verð bara að segja það. Það er ekkert leiðinlegt að skulda 22 milljónum minna en í síðasta mánuði. Þó svo að í augnablikinu sé búseta háð því að fasteignamarkaðurinn taki ekki allt í einu geðveikisflipp svo seljist undan okkur fína og risastóra leiguhúsnæðið.

Ég sé líka ákveðna þörf fyrir smá húsgagnaverslun. Ætla samt að reyna að hafa hemil á mér þar til ég verð búin að henda/gefa/selja bókstaflega allt sem ég þarf ekki að nota. Þá ætla ég að safna mér fyrir einhverju reglulega flottu mubleríi, einhversstaðar, kannski.

Hei!
Það er aftur komin sól!
Og fleiri heimapróf!
Jeij!

Engin ummæli: